Stjórnsöm stóra systir gerir lífið leitt

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð svarar spurningum lesenda Smartlands. 

Sæll Valdimar, 

Ég bý við mjög erfið samskipti við systur sem er haldin ofurstjórnsemi. Hún virðist telja sig eiga að stjórna fjölskyldunni, er elst af nokkuð stórum systkinahópi. Líklega fékk hún einhver skilaboð úr foreldrahúsum um að hún ætti að stjórna hópnum. Hvað er til ráða við að eiga við slík samskipti þar sem beitt er hótunum og sett skilyrði ef ekki er farið að hennar kröfum sem yfirleitt eru til þess fallnar að þjóna hennar persónulegu ætlunum án tillits til heildarinnar? Fjölskyldan kóar með og lætur sem allt sé „í lagi“.

Kveðja, ein sem er orðin þreytt á ástandinu

Góðan daginn og takk fyrir þessa fyrirspurn.

Þetta sem þú lýsir er mjög algengt samskiptaform í fjölskyldum og hægt að sýna á nokkuð rökrænan hátt hvernig þau verða til. Hvað þig varðar í þessu samhengi þá er mikilvægt að setja mörk sem þú getur verið sátt við. Þegar við setjum mörk þá erum við að ákveða hversu nálægt okkur við ætlum að hleypa manneskjum og því sem þær segja eða gera. Vandinn við að setja mörk er yfirleitt sá að við óttumst viðbrögð annarra manneskja og erum einfaldlega óttaslegin sjálf yfir því að þau muni valda okkur sársauka. Eins óttast margir að viðkomandi geti ekki sjálfur borið ábyrgð á sínum tilfinningum þegar við setjum þeim mörk, það er að segja að fólkinu sem við setjum mörk líði illa þegar það er gert. Hvort tveggja eru atriði sem við þurfum að yfirstíga því við eigum sjálf að geta aðskilið það sem aðrir segja eða gera og okkar eigin raunveruleika um hvað er rétt og satt fyrir okkur. Að sama skapi er það ekki okkar hlutverk að bera ábyrgð á tilfinningum fullorðinna manneskja og þurfum að treysta þeim til þess að takast á við að þeim séu sett heilbrigð mörk.

Það er gott að hafa gildin sín í huga þegar maður setur öðrum mörk. Ef gildin þín væru til dæmis virðing, heiðarleiki og jákvæðni gætir þú skoðað öll samskipti út frá því. Ef fólk nálgast þig með þessi þrjú atriði að leiðarljósi getur þú hleypt því nær þér og haldið samskiptum áfram. Ef þessum gildum er ekki fullnægt getur þú sett mörk. Það væri til dæmis með því að segja: „Ég finn að mér líður ekki vel þegar þú talar svona til mín. Talaðu við mig þegar þú ert tilbúin að gera það af virðingu og með jákvæðu hugarfari.“ Með því að tala út frá okkur, hvað okkur finnst og hvað við viljum, forðumst við að dæma aðra og drögum úr líkum á neikvæðum samskiptum þar sem aðilar skiptast á að verja sinn hlut.

Eins er gott að hafa í huga að það skiptir máli að setja mörk sem byggja á samskiptum. Það þýðir að við látum fólk vita af því að okkur líði ekki vel í samskiptunum og af þeim sökum þurfum við að draga okkur úr þeim eða að við munum setja skýr mörk þar sem við segjum hvað okkur finnst og hvað við viljum. Það að setja mörk með því einfaldlega að hætta að tala við einhvern er til þess fallið að valda enn meiri leiðindum því þá getur viðkomandi ekki axlað ábyrgð á því að skoða sína hlið á málinu og mögulega breyta samskiptahegðun sinni.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál