„Systir hefur gengið í reikningana sem sína eigin“

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér spyr áhyggjufull systir ráða en móðir hennar er glímir við veikindi. 

Sæll Valdimar,

Við erum fjögur systkini og móðir sem glímir við veikindi. Ein af okkur hefur séð um fjármál móður okkar í nokkur ár. Við höfum treyst henni en hún gaf í skyn að ekki væri eins mikið inni á reikningunum og við héldum svo síðastliðið sumar ákváðum við að biðja mömmu um aðgang að reikningunum hennar til að athuga hvort það væri örugglega ekki allt í lagi með þá. Hún veitti aðgang og við fórum yfir stöðuna frá þeim tíma. Það kom í ljós að þessi systir hefur gengið í reikningana sem sína eigin og það vantar nokkrar milljónir sem hafa farið í utanlandsferðir, bensínúttektir, veitingahús og hreinar millifærslur á  reikninga þessarar systur minnar.

Þegar við báðum hana um útskýringar vísaði hún í það að hún hafi hugsað mikið um mömmu og gaf í skyn að mamma hafi leyft henni þetta, og ef okkur vantaði frekari skýringar þá skyldum við spyrja mömmu. Mamma varð mjög sár yfir að hún hafi gengið svona í reikningana hennar og þvertók fyrir að hún hafi gefið henni neitt, enda er mamma þekkt fyrir að vilja ekki gera upp á milli okkar. Þótt mamma sé veik er það ekki enn svo slæmt að hún viti ekki hvað er í gangi í kringum hana. Hún veitti annarri systur okkar prókúru á reikningana sína og bankinn bað um vottorð frá lækninum hennar þar sem þessi staða hefði komið upp á og skrifaði læknirinn upp á að hún vissi alveg hvað væri í gangi með reikningana og annað í kringum hana.

Mig vantar ráðgjöf um hvernig við eigum að taka á málum systur minnar. Réttlætiskennd mín segir mér að þessi systir eigi að svara til saka fyrir þennan þjófnað því þetta er ekkert annað.

Kveðja,

Systir sem kemst ekki yfir óheiðarleika annarrar systur.

Góðan daginn og takk fyrir þessa spurningu.

Svona mál eru augljóslega erfið viðureignar þar sem blandast saman mikil tilfinningaleg tengsl, alvarleg veikindi, trúnaðarbrot og hugsanlegt lögbrot. Hvað mér viðvíkur þá get ég ekki veitt ráðleggingar um lagalegu hliðina en mæli alltaf með því að fólk tali við sérfræðinga á hverju sviði til þess að minnka óvissu. Þar sem þetta snýr að því hvort um lögbrot sé að ræða, þá ætti að fara með málið til lögfræðings og fá álit á því hvað eðlilegt væri að gera. Það er fljótlegt að finna út hvaða lögfræðingar hafa haft með svipuð mál að gera og ætti því að vera tiltölulega einfalt að fá úr því skorið hvort málsókn sé líkleg til að skila árangri.

Eitt þarf að hafa í huga hvað þetta varðar. Það er mamma þín sem ber ábyrgð á sínum fjármálum og því að hafa treyst viðkomandi aðila fyrir sínum fjármálum. Þrátt fyrir að hún eigi við alvarlegan sjúkdóm að stríða hefur læknir skrifað upp á að hún viti hvað er að gerast og það á þá líka við um að hafa treyst dóttur sinni fyrir sínum fjármálum. Það er því í raun hún sem þyrfti að sækja rétt sinn.

Þitt verkefni er svo að sinna þér og því sem að þér snýr. Svokölluð „Æðruleysisbæn“ er ágætis vegvísir en hún talar um að fá æðruleysi gagnvart því sem maður getur ekki breytt og kjark til að breyta því sem maður getur breytt. Að fá upplýsingar um lagalegan rétt í svona máli er eitthvað sem þú getur gert og þannig fengið ákveðin svör um hver möguleg næstu skref væru. Þú getur hins vegar ekki breytt því að mamma þín ber ábyrgð á sínum þætti og þó það sé sársaukafullt getur þú þurft að sleppa tökunum á því.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál