Mamma er að sturlast úr stjórnsemi

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er að bugast undan stjórnsamri móður sinni. 

Hæ Valdimar!

Ég á í töluverðum vandræðum með fjölskyldu mina. Vandamálið er að mamma mín er ferlega stjórnsöm og vill ráða öllu. Við systkinin erum öll komin yfir þrítugt í dag en þegar við vorum yngri stjórnaði hún okkur eins og strengjabrúðum. Eftir að við systkinin urðum eldri höfum við reynt að slíta okkur laus og reynt að taka sjálfstæðar ákvarðanir. En allt kemur fyrir ekki, ef við systkinin gerum eitthvað sem mömmu mislíkar fer allt á hliðina. Nú er þetta komið þannig að ég nenni eiginlega ekki að vera í samskiptum við hana því hún vill alltaf ráða öllu. Og þegar ég segi ráða öllu þá meina ég bókstaflega öllu. Hún vill stjórna því hvar ég kaupi í matinn, hvar ég starfa, hjá hverjum ég sef og hvernig ég el upp börnin mín. Er ekki einfaldasta leiðin bara að hætta að tala við hana?

Ég sé alla vega enga aðra leið því í hennar huga er allt fullkomið hjá henni og hún ætlar ekki að breyta neinu. Ég hef reynt að spyrna á móti og reynt að segja henni mina skoðun og að þetta sé ekki eðlilegt en hún hlustar ekki. Hefur þú einhverja hugmynd um hvers vegna mamma er svona og hvað er að hrjá hana. Eða verður fólk kannski bara svona með aldrinum?

Kær kveðja, S

 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

 

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Ástandið sem þú lýsir hljómar eins og þekkt hlið fyrirbæris sem í daglegu tali er kallað meðvirkni. Meðvirknin birtist mjög gjarnan í stjórnsemi sem verður öfgafull og öllum til ama, bæði þeim sem eru að stjórna og þeim sem í kringum þá eru. Það veldur sárri gremju ef stjórnsamri mannsekju er bent á hegðunina því í hennar huga er hún að leggja sig alla fram við að hjálpa og veita góðlátleg ráð og lítur þar af leiðandi á hegðun sína sem fórnfýsi og nausynlega fyrirhyggju frekar en afskiptasemi eða stjórnsemi.

Ég skil vel að þetta valdi þér og ykkur ama enda mikilvægt að öðlast sjálfstæði frá foreldrum sínum á einhverjum tímapunkti. Það væri auðvitað best að þið færuð öll á námskeið til þess að læra betur um orsakir og afleiðingar meðvirkninnar en slíkar ráðleggingar eru í raun ófaglegar þar sem eina manneskjan sem ég get í raun gefið einhverjar hugmyndir er sú sem leitar sér aðstoðar, í þessu tilviki þú sjálf. Það hefur gagnast fólki vel að læra betur á fyrrgreint fyrirbæri og styrkja sig í að vera frjálsara í krefjandi aðstæðum. Það gætir þú gert með því að leita faglegrar aðstoðar. Eitt af því sem mikilvægt er að gera er að setja öðrum skýr mörk og segja hvað manni finnst og hvað maður vill í samskiptum við aðra. Ef fólki er fyrirmunað að virða mörkin sem við setjum getur verið nauðsynlegt að draga verulega úr samskiptum við slíka aðila, þó ekki sé nema tímabundið á meðan við erum að styrkja okkur sjálf og mörkin okkar.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál