Endurfædd eftir líkamsárás

„Þar kom í ljós að ég var með áfallastreituröskun í …
„Þar kom í ljós að ég var með áfallastreituröskun í hámarki og það varð að gera eitthvað rækilegt í málunum svo ég næði einhverjum tökum á lífi mínu aftur.“ Styrmir Kári

„Upptökin voru þannig að vinkona mín, Alexandra Kristjánsdóttir, bauð okkur Þórunni Antoníu Magnúsdóttur út að borða. Tengdapabbi hennar var að opna veitingastað á Frakkastíg og við Þórunn fengum að koma í svona smakkferð,“ segir Sara María Júlíudóttir (35), fatahönnuður og lífstílsráðgjafi en síðar um kvöldið varð hún fyrir skelfilegri árás sem breytti bæði lífi hennar og árásarmannsins. 

Árásarmaðurinn átti að baki langan sakaferil þrátt fyrir ungan aldur en hann var nýlega dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir árásina á Söru. 

Að kvöldverði lokum röltu vinkonurnar út af veitingastaðnum, Þórunn, sem var barnshafandi, dreif sig heim til sín en Alexandra fór í röð fyrir utan veitingastað þar sem vinur hennar var plötusnúður sama kvöld.

Sara María ætlaði líka heim til sín en var að rabba við vinkonu sína þegar upp kemur orðaskak milli hinnar síðarnefndu og tveggja ungra manna sem stóðu líka í röðinni.  

„Þeir voru vinir en töluðu mjög dónalega við hvorn annan. Hún yrðir á þá og segir að það sé nú ekki fallegt að tala svona við vini sína, - þá byrjar hann með skæting og segir henni að halda kjafti. Svo heldur hann áfram að ögra henni og hún svarar honum að hann megi kalla hana ljótu nafni einu sinni enn. Við þetta ræðst hann á hana og kastar henni niður en ég fer aftan að honum og reyni að ná honum af henni. Þá snýr hann sér að mér af alefli. Braut meðal annars flösku á höfðinu á mér og barði mig margítrekað með henni. Ég var auðvitað öll skorin eftir þetta. Það þurfti að sauma mörg spor en það versta var að höndin, sem ég nota til að þrykkja með, var alveg ónýt. Ég gat ekkert notað höndina allt sumarið,“ segir Sara María en hún er mörgum kunn fyrir fatahönnun sína undir nafninu Forynja. 

Áfall á áfall ofan

Sara María segir árásina hafa átt sér stað á versta hugsanlega tíma en þegar árásin varð hafði hún nýlega komist að því að aðili henni mjög nákominn hafði verið mjög óheiðarlegur við hana í lengri tíma. 

„Árásin varð þannig áfall beint ofan í annað mikið áfall,“ segir hún en í kjölfar árásarinnar bauðst henni að fara til sálfræðings og fá áfallahjálp. 

„Þar kom í ljós að ég var með áfallastreituröskun í hámarki og það varð að gera eitthvað rækilegt í málunum svo ég næði einhverjum tökum á lífi mínu aftur.“

Sara, sem hafði stundað 12 spora fundi þar sem unnið er gegn meðvirkni, bætti fundarsókn sína. Hún byrjaði einnig að stunda hugleiðslu, fór sjálf í heilunarnám og náði að fyrirgefa árásarmanni sínum algjörlega. Á eftir fylgdi gerbreytt hugarfar. 

Í þessum hugleiðingum gerði ég mér grein fyrir hvað sykur …
Í þessum hugleiðingum gerði ég mér grein fyrir hvað sykur og hveiti gera líkamanum mikinn skaða svo ég tók það úr mataræðinu Instagram

„Ég áttaði mig á hvað það skiptir miklu máli að hlúa að sjálfum sér og taka því mjög alvarlega“

„Ég varð svo gersamlega tilbúin að umbreyta öllu hjá mér. Hugleiðslan hjálpaði mér að hlusta á hjarta mitt og nema líðanina. Ég prófaði mig áfram með allskonar gerðir af hugleiðslu og fór að hugsa svo margt, meðal annars um hvaða fólk maður hefur í lífi sínu, hvað nærir mann og hvað skaðar. Ég áttaði mig á hvað það skiptir miklu máli að hlúa að sjálfum sér og taka því mjög alvarlega,“ útskýrir Sara sem fór einnig að synda, hjóla og pæla í mataræðinu. 

Kaffi latte fyrir 80.000 á mánuði 

Sara María segir fjölskyldu sína almennt mjög meðvitaða um heilsuna og að það hafi aldrei verið mikið matarsukk í hennar uppeldi. Hinsvegar áleit hún sem svo að hún væri allt of mikill listamaður til að vera að velta sér upp úr heilsunni líka. 

„Ég vaknaði þá um morguninn og fór í vinnuna. Drakk fimm til sex tvöfalda latte yfir daginn. Klukkan fimm var ég svo gersamlega að sturlast úr hungri og lágum blóðsykri að ég brunaði niður á Bæjarins bestu og sporðrenndi tveimur með öllu. Svo um kvöldið gerði ég vel við mig með sushi af því dagurinn hafði verið svo erfiður. Svona var dæmigerður dagur hjá mér,“ segir Sara María og bætir við að útgjöldin við alla latte drykkjuna hafi verið orðin ansi há. 

„Ég var að fara með svona 80.000 á mánuði í þetta! Það er auðvelt að leggja það saman.“

Sara María undirbýr máltíðir vikunnar.
Sara María undirbýr máltíðir vikunnar. Instagram

Hveiti og sykur gera líkamanum skaða

Spurð út í breytingar á mataræði segir Sara María það hafa komið til sín í gegnum hugleiðsluna síðasta sumar. 

„Ég fattaði að ég vil bara vera í ofsalega góðu formi og gera það sem ég get til að öðlast það. Mig langaði að hugsa ofboðslega vel um sál og líkama. Í þessum hugleiðingum gerði ég mér grein fyrir hvað sykur og hveiti gera líkamanum mikinn skaða svo ég tók það úr mataræðinu,“ segir Sara sem studdist jafnframt við Herbalife vörurnar í lífstílsbreytingum sínum.  

„Ef maður losar sig við alla Herbalife fordómana þá eru þetta auðvitað bara næringarvörur,“ segir Sara María en þróun mála varð þannig að Sara fór að leiðbeina öðrum með lífstílsbreytingu og er nú á leið til Barcelona með fimmtán ára dóttur sinni, Dóróteu Maríu, þar sem Sara ætlar að vinna við lífstílsráðgjöf. Hún er full bjartsýni og hlakkar til framtíðarinnar. 

„Ég varð svo gersamlega tilbúin að umbreyta öllu hjá mér. …
„Ég varð svo gersamlega tilbúin að umbreyta öllu hjá mér. Hugleiðslan hjálpaði mér að hlusta á hjarta mitt og nema líðanina.“ Styrmir Kári

Leita að nafni fyrir mæðgnateymi á Instagram

„Það er allt jákvætt í kringum þetta og meira að segja dóttir mín er búin að temja sér betri venjur. Við fórum í bíó um daginn og ég bauð henni nammi en hún afþakkaði af því hún vill ekki skemma árangurinn sinn, “ segir Sara stolt en það ætti að vera skemmtilegt sumar sem bíður þeirra mæðgna.

„Við mæðgur ætlum að vera fitness teymi á Instagram enda erum við á fullu saman í þessu. Hún kemur með mér í ræktina klukkan sjö á morgnanna og er á sama mataræði. Við ætlum að njóta Barcelona í botn og leyfa öðrum að fylgjast með okkur frá degi til dags,“ segir Sara María og bætir við að nú séu þær á fullu að leita að nafni á teymið sitt sem aðrir mega fylgja á Instagram. 

Fallegar mæðgur og bjartir tímar framundan í Barcelona.
Fallegar mæðgur og bjartir tímar framundan í Barcelona. Instagram

„Ég hvet fólk bara til að finna mig á Facebook og stinga upp á einhverju skemmtilegu nafni," segir Sara María.

Að lokum segir hún okkur skemmtilega sögu af því hvernig framtíðaráformin, sem eru að brjótast fram í dag, leyndust innra með henni frá því hún var lítil stelpa. 

„Þegar ég var lítil stelpa á Akureyri dreymdi mig alltaf um að eiga stórt hús þar sem fólk í yfirvigt myndi koma til mín til að breyta um lífsstíl. Ég ætlaði að passa upp á allt þetta fólk, leiða það inn á betri braut og hjálpa þeim að losna við byrðina sem lét þeim líða illa. Ég sver það að ég hugsaði mjög oft um þetta og íhugaði meira að segja að skrifa bæjarstjóranum bréf svo hann gæti útvegað mér þetta hús.“ segir Sara María Júlíudóttir að lokum en gaman er að geta þess að mæðgurnar eru nú með sölu á Facebook þar sem þær losa sig við fatnað og fleira til styrktar Barcelonaferðinni. 

Vakna saman á morgnanna til að fara á æfingu klukkan …
Vakna saman á morgnanna til að fara á æfingu klukkan sjö. Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál