Ætlar að borða færri hamborgara og fækka fundum

Svanhildur Hólm Valsdóttir.
Svanhildur Hólm Valsdóttir. G.Rúnar

Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, átti viðburðaríkt ár 2015. Hún uppgötvaði til dæmis hvað svefninn er mikilvægur en hún endurheimti minni með því að sofa meira. Árið 2016 ætlar hún að fækka fundum og borða örlítið færri hamborgara.

Hvað myndirðu vilja gera aftur einhvern tímann sem þú prófaðir að gera á árinu?

„Ég myndi vilja fara aftur til Perú og gefa mér þá tíma til að skoða allt það helsta sem maður á að skoða þar og borða meira af perúskum mat. Hann er frábær. Og drekka meira pisco sem er þjóðardrykkurinn þeirra.“

Komstu að einhverju nýju um sjálfa þig á árinu? „Já. Mér finnst mikilvægara að sofa nóg en að gera allskonar aðra hluti. Það var kominn tími til að uppgötva þetta. Hægt og rólega er ég að endurheimta minni sem ég hef tapað í svefnleysi síðustu tveggja áratuga eða svo.“

Hver er eftirminnilegasta manneskjan sem þú hittir á árinu? Eða eftirminnilegasta samtalið? „Eftirminnilegasta manneskjan er lítil stelpa sem ég hitti í flugvél á leið frá Orlando nú í desember. Tíu mánaða orkubolti sem sat við hliðina á okkur og gerði flugferðina miklu skemmtilegri. Eftirminnilegustu samtölin eru sennilega við fimm ára dóttur mína sem hefur einstakt lag á að afgreiða hluti. Eins og núna milli jóla og nýárs þar sem ég sat og var að skrifa eitthvað fyrir vinnuna sem Hrafnhildi fannst hreinn óþarfi.“

Hún: Af hverju viltu skrifa í þetta blað?

Ég: Af því að Bjarni vill það.

Hún: Þú þarft að fá þér betri vinnu.

Ef þú mættir sleppa einhverju sem þú gerðir eða prófaðir eða eyddir tíma þínum á síðasta ári - hvað yrði það?

„Ég myndi sleppa svona að minnsta kosti öðrum hverjum hamborgara. Einhverra hluta vegna sló ég öll met í hamborgaraáti á þessu ári. Og svo finnst mér göfugt markmið að fækka fundum. Verulega. Fundir eru ofmetnasta fyrirbrigði mannlegra samskipta.

Ef þú ættir að draga einhvern lærdóm af síðasta ári - hvaða ráð myndirðu gefa sjálfri þér fyrir árið 2016? „Vera og njóta, ekki bara gera og þjóta.“

Að lokum - ætlarðu eða langar þig til að að gera eitthvað nýtt á árinu - hvort sem það er áramótaheit eða einfaldlega að prófa eitthvað nýtt og hvað þá? „Ég strengi aldrei áramótaheit. Ég ætla samt ekki að borða neina hamborgara – í janúar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál