„Hann var enginn sérstakur draumaprins“

Rithöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir.
Rithöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir.

Metsöluhöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir var að gefa frá sér skáldsöguna Aflausn. Hún fjallar um atburð þar sem ráðist er á unglingsstúlku á salerni í kvikmyndahúsi. Á óhugnanlegum myndskeiðum sem send eru vinum hennar á Snapchat sést þessi vinsæla stelpa ítrekað biðjast fyrirgefningar – en á hverju og af hverju? Lögreglan er ráðalaus í leit sinni að ofbeldismanninum og stúlkunni, sem er horfin. Og þá tekur málið ískyggilega stefnu. Í Aflausn stíga fram á sviðið sömu aðalpersónur og í Soginu og DNA, bestu íslensku glæpasögunni árið 2014.

Aflausn eftir Yrsu Sigurðardóttur.
Aflausn eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Hér fyrir neðan er 1. kafli bókarinnar: 

Kvennaklósettin í kjallara bíósins voru mannlaus. Hvítir postulínsvaskarnir voru þurrir og rifa á dyrum tómra básanna. Fyrr um kvöldið höfðu konur beðið í röðum eftir að komast að og umgengnin bar þess merki. Notaðar þurrkur fylltu ruslatunnur svo að flæddi niður á gólf. Tóm kókglös stóðu alls staðar þar sem þeim varð fyrir komið og dreifst hafði úr stórum popppoka um gólfið. Megnið af því hafði orðið undir fótum gestanna sem tvístigu í spreng.

Stella gerði ráð fyrir að ástandið væri eins karlamegin og prísaði sig sæla að vinna ekki við þrifin. Þetta leit reyndar óvenju illa út enda tvær myndir sýndar fyrir fullum sal og í hinum tveimur hafði verið slatti. Eins og við mátti búast hafði verið örtröð í sjoppunni, bæði áður en myndirnar hófust og í hléi. Poppvélin hafði ekki haft undan þótt þau hefðu safnað upp birgðum og diet-kókið klárast við litla hrifningu gesta. Stella hafði orðið að bíta á jaxlinn til að svara kúnnunum ekki með skætingi þegar þeir reyndu að kenna henni um. Eins og hún sæi um innkaup eða birgðahald.

Stella hikaði í gættinni. Allt í einu var hún sér meðvituð um að hún var ein í kjallaranum. Alein í húsinu, meira að segja.

Drunurnar úr hljóðkerfinu í sölunum voru þagnaðar, sömuleiðis masið í hinum stelpunum. Hún hafði boðist til að ganga frá svo þær næðu strætó. Horfði síðan í gegnum glervegginn í anddyrinu á eftir þeim hverfa út í bylinn. Um leið og hætti að móta fyrir þeim sá hún eftir að hafa verið svona almennileg. Að vísu hafði hún ekki gert þetta af góðmennskunni einni. Hún hafði ekki getað á sér setið að monta sig aðeins. Vekja athygli á því að hún ætti kærasta. Sem átti bíl. Hún þurfti ekki að þvælast um í strætó eins og þær.

Stellu varð hugsað til snappsins sem hún fékk rétt eftir að hléinu lauk. Hún þekkti hvorki haus né sporð á sendandanum og hafði aldrei samþykkt hann. Það var auðvitað löngu kominn tími til að breyta stillingunni og loka fyrir að ókunnugir gætu sent henni skilaboð, nú þegar gamla liðið var farið að nota miðilinn. Það hafði næstum eyðilagt Facebook og ekki við öðru að búast en að það rifi núna Snapchat í sig. Þetta var örugglega einn af þessum gamlingjum, kannski vinkona mömmu hennar eða frænka sem hún mundi ekki eftir. Nafnið sagði henni í það minnsta ekki neitt. Bara13. Kannski var þetta svo alls ekki konunafnið Bára heldur einhver krakki þegar allt kom til alls, rétt orðinn þrettán ára. Það myndi skýra rugluð skilaboðin.

Í snappinu var mynd af henni sjálfri; hún var tekin í bíóinu þar sem hún stóð í hléinu að rétta popppoka yfir borðið. Þetta var ekki góð mynd af henni, hún var grettin í framan og það sem sást af líkamanum asnalegt. Engin pósa, ekkert bros. Yfir myndina hafði sendandinn sett stutt skilaboð sem voru jafn dularfull og myndsendingin. Í þeim var eitt orð: Sjáumst. Hver sem þetta nú var, þá hafði viðkomandi verið í bíóinu en ekki gefið sig fram. Kannski einhver feiminn smástrákur sem guggnaði á því að svífa á hana. Sem var heppilegt fyrir hann því hún hefði ekki tekið slíku vel. Hún hafði ekki áhuga á að kynnast krípi og bara kríp sendu svona nokkuð óumbeðið.

Dyrnar inn á klósettið lokuðust á eftir Stellu. Pumpan var biluð svo hurðin rann í fyrstu hægt að stöfum en féll svo af krafti í falsið. Skellurinn glumdi í flísalögðu rýminu og ómaði í eyrum hennar löngu eftir að hann var í raun þagnaður. Ómurinn gerði ekki annað en að minna hana á þögnina og það að hún var ein og yfirgefin. Þótt henni hefði ekki liðið neitt alltof vel uppi, var snöggtum verra að vera niðri í þessum kjallara, jafnvel þótt hann væri bara nokkrum tröppum neðar en aðalhæðin. Uppi sá hún þó út. Í það minnsta það litla sem mátti greina í hríðinni. Líklega var það veðrið sem hafði rekið fólk í hrönnum í bíó; Stella hafði séð allar myndirnar í bíóinu og þær voru hvorki fugl né fiskur. En undir þeim var hægt að gleyma andstyggilegum vindinum og snjónum.

En veðrið var skárra en yfirgefið bíóið. Stella gat ekki beðið eftir að komast út og inn í bílinn til Hödda. Hann var alger beygla og miðstöðin biluð en skárri en strætó. Svolítið eins og Höddi sjálfur. Hann var enginn sérstakur draumaprins en skárri kostur en að vera á lausu og myndi duga á meðan hún leitaði sér að nýjum og betri. Einhverjum sem væri nógu sætur og á nógu flottum bíl til að gera vinkonurnar grænar af öfund. Þannig kærasta vildi hún eiga. Ekki eins og Hödda sem varð að vera úr fókus á myndunum sem hún setti á samfélagsmiðlana.

Stella valdi innsta básinn og flýtti sér að loka. Gegnt klósettunum voru vaskarnir og risastór spegill eftir endilöngum veggnum. Hana langaði ekkert sérstaklega til að virða sjálfa sig fyrir sér á þessari stundu. Hún var þreytt, sjúskuð og þurfti nauðsynlega að fara í klippingu, litun og plokkun. Eftir skiptingunni á kollinum var dökk rót. Hún minnti á sportröndina sem lá eftir endilöngu, ryðguðu húddinu á bíl Hödda. Viðbjóður. Áður en hún fór niður að pissa hafði hún staldrað við hjá draugnum úr hryllingsmyndinni sem var sýnd í stóra salnum, ætlaði að senda vinkonunum snapp af sér við hliðina á verunni, en hætti við því að hún vildi ekki að þær sæju hvað hún leit illa út. Svo var eitthvað óþægilegt við að standa hjá þessari fremur óhugnanlegu uppstillingu. Samt vissi hún auðvitað að þetta var ekkert annað en risastór mynd skorin út í pappa. Hún myndi gera þetta seinna, þegar hún væri ekki ein eftir í húsinu og liti betur út. Það voru alveg að koma mánaðamót og þá gæti hún kippt útlitinu í liðinn. Það var þá líka eins gott að launin yrðu greidd stundvíslega því hún átti pantaðan tíma um leið og hárgreiðslustofan opnaði þann fyrsta. Verst hvað það var fokking dýrt að vera með flott hár.

Stella gyrti niður um sig og pissaði, án þess að tylla sér á setuna. Guð mátti vita hvaða bakteríur bíógestir skildu eftir sig og hún ætlaði sannarlega ekki að verða ein af þessum druslum sem nælir sér í kynsjúkdóm. Síður en svo. Slíkt orðspor var ekki hægt að reka af sér.

Gegnum hljóðið frá bununni heyrðist henni dyrnar inn á klósettið opnast. Hún fann gæsahúðina spretta fram á nöktum lærunum og fékk óþægilegan herping í hálsinn. Hver í helvítinu gat þetta verið? Hafði einhver af stelpunum snúið við? Og hvernig komst hún þá inn um læstar útidyrnar? Höfðu þær kannski gleymt að loka á eftir sér? Aftur varð henni hugsað til snappsins. Ekki gat þetta verið Bara13?

Hávær skellurinn gaf til kynna að dyrnar hefðu lokast. Stella hélt niðri í sér andanum á meðan hún sperrti eyrun og hlustaði eftir því hvort sá sem opnaði væri inni á klósettinu. Kannski var þetta bara öryggisvörður sem var of snemma á ferðinni og þurfti að kíkja inn í öll rými. En svo heppin var hún ekki, marr undan skóm bar því vitni að hún var ekki lengur ein.

Pissið var orðið að stökum dropum sem féllu í takt við fótatak þess sem var inni á salerninu. Þetta hlaut að vera kona. Varð að vera kona. Hvað gat karlmaður viljað inn á kvennaklósett svona seint í yfirgefnu bíói? Það var ekki eins og það væri allt fullt þeirra megin. Stella velti fyrir sér að kalla og spyrja hver þetta væri en hætti við. Hún teygði sig í pappír og reif nokkur blöð af rúllunni eins hljóðlaust og henni var unnt, þerraði dropann, rétti úr sér og hysjaði upp um sig buxurnar. Við það leið henni aðeins skár, fannst hún í það minnsta ekki eins varnarlaus. En sú tilfinning hvarf skjótt.

Undan hurðinni sá hún tvo skó birtast og staðnæmast fyrir utan básinn. Þetta virtust vera stígvél og breiddin benti til þess að þau væru í karlmannsstærð. Stella kæfði óp með hendinni. Af hverju stóð hann þarna? Fæturnir hreyfðust ekki, viðkomandi hafði tekið sér stöðu eins og þetta væru útidyr og hann hygðist hringja bjöllu. Það var ekki fjarri lagi því það næsta sem hún vissi var að bankað var af afli á hurðina. Hún starði á hana eins og hún væri ólögulegur skjár sem myndi nú birta skýringu á því hvað gengi á.

Síminn hennar pípti og hún dró hann skjálfhent upp úr vasanum.

Hana langaði mest til að henda honum frá sér þegar hún sá að komið var annað snapp frá Bara13. En áður en hún vissi af höfðu fingurnir ýtt á skjáinn og opnað það. Hún kæfði óp þegar hún sá myndina sem birtist. Hún var af lokuðum dyrum eins og þeim sem voru inn á klósettbásinn. Það gat ekki annað verið en þetta væri sama hurð og skildi hana frá sendandanum. Myndinni fylgdi enginn texti.

Aftur var bankað af sama krafti og Stella tók ósjálfrátt skref aftur á bak. Við það rákust fæturnir harkalega í harða klósettskálina og hún kiknaði í hnjánum. „Hver er?“ Hún fékk ekkert svar. Orðin höfðu hrokkið úr munni hennar án þess að hún fengi nokkru um það ráðið. Röddin var óstyrk og aumingjaleg, eitthvað sem Stella kannaðist ekki við hjá sjálfri sér. Hún var vön að vera leiðtoginn í hópnum. Sterk. Ákveðin. Óvægin í garð aumingja sem hljómuðu eins og hún núna.

Nú var bankað svo fast að hurðin gekk til. Stella leit á veiklulega læsinguna og sá í hendi sér að í henni var lítil vörn. Hugsanirnar hringsnerust meðan hún skimaði eftir einhverju sem gæti bjargað henni en sá auðvitað ekkert. Klósettpappírsrúlla og statíf. Ruslatunna úr plasti með loki. Vegghengt klósett sem hún gæti kannski hent í hausinn á manninum ef hann bryti sér leið inn. En henni myndi aldrei takast að losa það. Svo mundi hún eftir símanum sem hún hélt enn á í þvölum lófanum. Hvað var aftur númerið hjá neyðarlínunni? Einn, einn, eitthvað. Einn, einn, tveir eða einn, einn, þrír? Eða var það fjórir? Ætti hún kannski að hringja í Hödda? Hann hlaut að vera á leiðinni og nær bíóinu en löggan. Eða hvað?

Stella þurfti ekki að taka þessa ákvörðun. Maðurinn kastaði sér á hurðina og veigalítil lokan gaf eftir. Hurðin slóst í höfuð Stellu svo að hún féll við og endaði sitjandi á klósettinu, ringluð eftir höggið. Þessu fylgdi einnig ógleði en hún náði með herkjum að líta upp og horfa framan í manninn. Í fyrstu hélt hún að skuggi félli á andlitið, nánast svartur. Það tók hana smástund að átta sig á því að hún horfði framan í glansandi Darth Vader-grímu, undan hettu á svartri úlpu. Innan við möndlulaga göt á grímunni glitti í augu sem störðu á hana án þess að henni tækist að lesa nokkuð út úr þeim. Hanskaklædd hönd teygði sig í áttina að henni og hrifsaði af henni símann. Maðurinn fiktaði eitthvað í honum og Stella bað þess heitt að þetta væri þjófur, einungis kominn til þess að stela gemsanum hennar. Hann mátti eiga hann og meira til. Allt úr vösunum, öll launin um mánaðamótin. Veskið hennar. Hvað sem væri. Bara ef hann færi og snerti hana ekki.

„Jæja.“ Rödd mannsins var undarleg, ekkert ólík Darth Vader, fannst Stellu. Hrjúf. Eins og hálsinn væri fóðraður með sandpappír. Líkast til fylgdi lélegur hljóðgervill grímunni. Hann beindi símanum að henni eins og hann væri að mynda hana þar sem hún sat á klósettinu. Tár hófu að leka niður kinnar hennar. Hvað var hann að gera? Af hverju ætti símaþjófur að vilja eiga upptöku eða ljósmynd af upphaflegum eiganda gemsans? „Nú reynir á.“

„Ha?“ Stella renndi sér eins langt aftur á klósettsetunni og hún gat. Bakið á henni lá nú upp að hörðum veggnum og gegnum þunna peysuna fann hún fyrir köldu, sléttu yfirborðinu sem bætti á hrollinn.

„Segðu fyrirgefðu.“

Hún reyndi ekki að malda í móinn heldur vandaði sig við að segja fyrirgefðu gegnum ekkann sem leitaði út.

„Æi. Þetta var ekki nógu gott. Alls ekki sannfærandi. Þú verður að gera betur.“

Og hún reyndi. Og hún reyndi. Endurtók orðið þar til það var farið að hljóma einkennilega í höfðinu á henni. Eins og það væri alls ekki raunverulegt orð. En maðurinn varð aldrei sáttur.

Fyrir það mátti hún gjalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál