Pínulítið erfitt fyrir lúxuspöddur frá Íslandi

Kristín Ýr Gunnarsdóttir er nýkomin heim frá Marokkó þar sem hún fór í jóga- og surfferð með átta vinkonum sínum. Hún segir að ferðin hafi tekið á tilfinningalega og ýmislegt gengið á en brotist var inn í húsið sem þær gistu í. Það varð þó ekki mikið tjón og þjófurinn hafði nokkra aura upp úr krafsinu. Þrátt fyrir þetta segir hún að ferðin hafi verið stórkostleg og hún vilji fara aftur til Marokkó fljótlega. 

„Anna Brynja vinkona mín er algjör forystusauður þegar kemur að þessari ferð. Hún stofnaði hóp fyrir þremur árum sem hún kallar ævintýrapjásurnar. Sá hópur reynir að hittast einu sinni í mánuði og gera eitthvað ævintýralegt saman. Í lok árs 2016 fórum við út að borða saman og þá sagði hún okkur frá því að hún og Alla, sem er líka í hópnum, ætluðu að fara til Marokkó í jóga og sörfferð. Hún á vinkonu sem hafði farið þarna og lofaði þetta í bak og fyrir.  Hún henti því fram þar að okkur væri velkomið að koma með. Það fór að sjálfsögðu ævintýrafiðringur um okkur allar og við vorum sjö sem hoppuðum á vagninn,“ segir Kristín Ýr en með þeim Önnu Brynju voru sjö aðrar konur, þær Aðalheiður Mjöll, Aldís Pálsdóttir, Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, Hildur Friðriksdóttir, Hildur Þórðardóttir, Elfa Björk Rúnarsdóttir og Erla Kristín Gunnarsdóttir. 

Kristín Ýr segir að stelpurnar hafi keypt flugmiðana í janúar. Þegar hún er spurð að því hvað þær hafi verið lengi að skipuleggja ferðina segir hún að sjálf hafi hún eiginlega ekki skipulagt neitt. 

„Ég verð að viðurkenna það að ég kom eiginlega ekkert að skipulagi þessarar ferðar. Mér var bara sagt hvert ég ætti að mæta, hvað ég ætti að setja í töskuna og hver áfangastaðurinn væri. Fyrir þriggja barna móður á hlaupum er þetta auðvitað fullkomið fyrirkomulag! Ég sendi skilaboð daginn áður en leggja átti af stað á hana Hildi mína og spurði: Klukkan hvað fljúgum við í fyrramálið?“

Kristín Ýr segir að vinkona Önnu Brynju hafi farið á þennan stað og þess vegna hafi bærinn Imiouaddar, sem er í klukkutíma fjarlægð frá Agadír í Marokkó, orðið fyrir valinu.  

„Anna Brynja á vinkonu sem hafði farið þangað og hún dásamaði þetta í bak og fyrir. Hún hitti okkur einmitt áður en við fórum og fór yfir helstu atriði með okkur. Það var mjög þægilegt því þá vissum við betur að hverju við gengjum,“ segir Kristín Ýr. 

Hvernig fannst þér Marokkó?

„Marokkó er dásamlegur staður að heimsækja. En auðvitað örlítið erfiður líka fyrir lúxuspöddur frá Íslandi. Við vorum í litlum smábæ sem heimamenn kalla Imiouaddar og það er svona klukkutíma akstur frá Agadir semvið flugum til. Bærinn er svona eins og hálft Akranes, hann er svo lítill. Við vorum í  jógasetrinu Villa Surya og þar var umhverfið vel verndað.“

Þegar ég spyr Kristínu Ýri hvað þessi ferð hafi gefið henni segir hún að ferðin hafi hjálpað henni að ná smá ró í sálinni eftir erfitt ár. 

„Ég viðurkenni að þegar ég settist ein upp í lest til að fara til Hamborgar, en þangað fór ég ein í beinu framhaldi á heimleiðinni, þá bara byrjaði ég að hágráta. Ég var svo uppfull af allskonar tilfinningum og réð ekkert við mig. Ég vorkenndi örlítið miðaldra mönnunum sem sátu á móti mér í lestinni. Þeir reyndu bara að horfa á allt annað en mig á meðan tárin runnu niður kinnarnar á mér.

Á einum tímapunkti hugsaði ég líka að mig langaði með börnin mín á þennan stað. Til að leyfa þeim að upplifa núið sem fylgdi verunni þarna. Símarnir okkar voru mikið niðri í tösku því það var svo dýrt að hringja heim og internetið afskaplega lélegt. Það er svo hollt að komast aðeins frá daglega amstrinu.“

Hvað komstu með í bakpoka lífsins úr þessari ferð?

„Ég kom með þakklæti í bakpokanum úr þessari ferð. Það var einhver einstök ró sem ég upplifði þarna. Við vorum í jóga þrjá tíma á dag þar sem mikil áhersla var á öndun, teygjur og slökun. Þess á milli svömluðum við í sjónum eða sátum og spjölluðum saman um lífið og tilveruna. Við vorum þarna saman níu konur, allar á okkar forsendum, konur sem þekktust margar ekki mikið fyrir en innsigluðu frábæra vináttu á þessum sjö dögum.
Við tókumst á við ýmislegt saman, hlógum, grétum, slúðruðum, fórum í jóga, lærðum að sörfa, settumst á úlfalda, tókumst á við innbrot af mikilli samheldni, peppuðum hver aðra upp, ræddum skemmtilega og erfiða hluti, drukkum bjór, rauðvín og skáluðum í freyðivíni. Þetta voru sjö dagar af góðri líðan, sjö dagar af hlátri, sjö dagar af dásamlegri upplifun. Þetta var sannkallað ævintýri í alla staði! 

Ég er líka enn að melta þetta ferðalag og örlítið að átta mig á streitunni sem fylgir mér oft. Ég fer út átta á morgnana og ég sest ekki niður fyrr en tíu á kvöldin. Ég er alltaf með plön, alltaf að gera eitthvað og má aldrei missa af neinu. Það er svo hollt að fara í svona sjálfsskoðun og aðeins átta sig á að kannski ætti ég að velja annað? Kannski ætti ég aðeins að að róa mig og byrja dagana á góðri öndun og faðmlagi í staðinn fyrir á hlaupum því ég má engan tíma missa,“ segir Kristín Ýr. 

Dagarnir byrjuðu á safa klukkan korter yfir sjö á morgnana. Eftir það fóru stelpurnar í jóga í einn og hálfan tíma. 

„Eftir það var misjafnt hvað við gerðum. Við fórum að sörfa, lærðum á SUP-bretti, fórum upp í fjöll til kvenna í nudd og svokallað Hammam bað. Sem var alveg ein sú furðulegasta upplifun sem ég hef verið sett í. Þar voru tvær konur sem skrúbbuðu okkur í bak og fyrir og helltu yfir okkur vatni úr fötum. Okkur var skipt í tvo hópa, sagt að fara úr öllum fötunum og við sátum bara saman þarna á Evuklæðunum vinkonurnar á meðan við vorum þvegnar í bak og fyrir. Við vorum algjörlega berskjaldaðar þarna og hlæjum að því að þetta hafi algjörlega innsiglað vináttu okkar. Já og húðin á mér hefur aldrei verið eins hrein og góð og eftir þetta bað. Við heimsóttum bæi þarna í kring og komumst yfir margt á þessum sjö dögum. Svo var jóga á kvöldin frá 18.00-19.30 og oftast vorum við komnar í rúmið fyrir tíu. Enda dagurinn nýttur til fulls.“

Var líka eitthvað sérstakt mataræði eða var það bara hefðbundið?  

„Já, við vorum í grænmetisfæði á meðan við vorum þarna. Ég held að þetta sé einn sá besti matur sem ég hef smakkað. Enda mikið um gott krydd og allt bragðsterkt og fínt.“

Ertu komin með massíva jógadellu eftir þetta?

„Já, ég held að ég sé frekar að detta í að fá massíva sörf dellu. Nú geri ég fátt annað en að skoða staði til að sörfa á og finna næsta ferðalag að fara í! En jógað gerði líka mikið fyrir mig og ég fann að það var viss ró sem ég fór með út í daginn eftir jógatímana á morgnana. Sú tilfinning situr dálítið í mér.“

Myndir þú fara aftur í svona ferð?

„Ég ætla aftur í svona ferð og ég mæli með svona ferð fyrir alla. Það eru forréttindi að hafa verið svo heppin að fara með þessum átta konum í þessa ferð og í raun ótrúlegt hvað allt gekk rosalega vel. Það kom aldrei upp vesen, aldrei upp leiðindi og við lögðum okkur allar fram við að passa að hverri og einni liði vel. Ég segi því við alla vinkvennahópa: Farið í svona ferð saman, hún mun gera svo mikið fyrir ykkur. Og hún þarf ekki að vera svo dýr!“

Gerðist eitthvað óvænt í ferðinni?

„Já, því miður urðum við fyrir því að brotist var inn í húsið sem við gistum í. Við vöknuðum við öskur í stelpu sem var á neðri hæðinni og þegar við komum fram áttuðum við okkur á að það hafði verið innbrotsþjófur í húsinu. Hann náði tösku frá einni okkar en henti henni svo á jörðina fyrir utan eftir að hafa tekið peningana úr henni. Sem betur fer voru það bara nokkrir aurar og kortin hennar ekki með.

Þetta var mjög óþægileg upplifun og þarna fengum við að sjá hvað það fylgir Íslandi mikið öryggi. Eigandi staðarins kom og við spurðum hann hvort hann ætlaði ekki að hringja í lögregluna? Hann sagði það ekkert hafa upp á sig. Hann myndi heyra í þeim þegar liði á daginn. En með þrýstingi frá okkur var svo haft var samband við lögregluna. Þá fór viss atburðarás af stað og það mættu rannsóknarlögreglumenn sem tóku fingrafar og annað og grandskoðuðu húsið. Þeim er nefnilega mikið í mun að passa upp á ferðamenn.  Það kom svo skipun frá höfuðborginni að setja lögreglu á vakt í bæinn svo næstu daga á eftir  snéri sér enginn við án þess að labba í fangið á lögreglu.

Við ákváðum samt að klára ferðina og ekki færa okkur annað og láta þetta ekki setja svartan blett á hana. Okkur tókst það svo sannarlega. Við ræddum þetta vel og ræddum hvernig okkur leið og það var viss losun. Það er nefnilega mátturinn í vináttunni!

Líklega var það líka partur af þessu tilfinningaróti mínu í lestinni, ég upplifði svo miklar öfgar í tilfinningum þarna, allt þakklætið en líka hræðsluna sem fylgir því að upplifa að einhver sé inni í húsinu þínu á meðan þú sefur. Það er svo mikið innbrot í öryggið.“

Hvað var magnaðast að sjá?

„Ég var ekki nægilega mikið að spá í umhverfið, ég var meira einhvern veginn inn á við og að spá í upplifun og líðan. Ég myndi því segja að það sem var magnaðastvar að upplifa var tímaleysið sem fylgdi verunni í sjónum. Þar var bara ég, vinkonur mínar, sörfbretti og núið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál