Af skeggi og skurði

Björgólfur Thor Björgólfsson og Mugison eru með eins skegg.
Björgólfur Thor Björgólfsson og Mugison eru með eins skegg. Ljósmynd/Samsett

Undirritaður hefur lengi verið á þeirri skoðun að allir karlmenn séu fegurri með skegg og vill að sjálfsögðu halda því fram að hann sé brautryðjandi í þessum efnum, en nóg um það. Ég hef lengi haft skegg og á ýmsan veg. Lengst af lét ég það vaxa þar til ég nennti því ekki lengur og stytti það þá. Það gaf mér líka tækifæri til að hugsa um húðina þegar skeggið var styttra en ég er með einkar viðkvæma húð. Eftir að skeggið fór svo að verða metnaðarmál fór að verða aðkallandi að geta gert hvort tveggja í einu og því fór ég að sanka að mér allskonar ráðum um skegghirðu. Í þessum pistli langar mig að miðla nokkrum af þessum ráðum en þó ber að hafa í huga að ég er hvorki fagmaður í hárskurði né húðhirðu. Þessi ráð eru þau sem hafa gefist mér best.

Skegg krefst athygli

Vissulega eru margir þeirra sem hafa skegg sem annaðhvort láta sér nægja að láta það bara vaxa án þess að veita því mikla athygli eða eru svo heppnir að skeggið þarf hvorki mikla athygli né mikið nostur. Hinsvegar er það, að mínu viti, körlum til mikilla tekna sýni þeir þann metnað að vera með vel hirt og snyrtilegt skegg. Reyndar ber ég jafn mikla virðingu fyrir þeim sem lykta jafnan vel, eru alltaf snoðrakaðir, klæða sig smekklega og þar fram eftir götunum. Mér þykir satt best að segja bara virðingarvert þegar við karlarnir hugsum vel um okkur og sýnum útliti okkar smá metnað. Það sem segir mest um og sýnir best fram á vel hirt alskegg er snyrtilegt form, að útlínan á skegginu sé jöfn. Þarna greinir hvað auðsjáanlegast á milli þeirra sem hafa bara skegg og þeirra sem halda skegg. Það að halda skegg krefst stöðugrar athygli. Það þarf að fylgjast með endunum til að sjá hvenær þarf að særa, það þarf að skafa jaðarinn til að halda útlínunni snyrtilegri og það þarf að jafna síddina því í flestra tilfelli vex skeggið mishratt eftir því hvar á andlitinu það er. Það er svo sem lítið mál að halda lengri hárum í skefjum og halda við forminu en þegar að því kemur að móta skeggið mæli ég hiklaust með því að leita til fagmanns, í það minnsta til að byrja með. Vissulega hefur skegg þann kost fram yfir hárið sjálft þegar kemur að snyrtingu að það er ekki mikið mál að sjá hvað maður er að gera. Þó er lykilatriði að vera með góð skæri hafi maður það í hyggju að snyrta sjálfur. Ekkert minna en faggræjur dugar þegar kemur að því að hugsa um hvers manns stolt og prýði.

Þegar á hólminn er komið og skærin komin í hönd ber að hafa í huga að skeggið er eitthvað sem ekki fær sömu meðferð og hárið. Við erum ekki að troða í það efnum til að forma það og láta það haga sér eins og við viljum heldur lítur það út eins og það gerir. Þess vegna er mikilvægt að vera ekki að toga það og teygja til að búa til einhverjar línur sem munu svo vera á allt öðrum stað þegar skeggið er nýþornað og búið að taka sér sitt form. Hinsvegar þarf að snyrta skeggið þegar það er hreint og þurrt svo náttúrulegi vöxturinn hafi ekki áhrif á lokaniðurstöðuna eftir að skeggið er klippt.

Að raka slétt

Þegar kemur að hreinrakstri er fleira sem ber að huga að.

Það velkist væntanlega enginn í vafa um að tignarlegasta leiðin til að skafa sé sjálfur rakhnífurinn. Hann er hins vegar ólíkindatól og ekki heiglum hent að ná tökum á honum. Það sem kemst honum næst og er hvað þægilegast fyrir menn eins og mig sem eru með viðkvæma húð er, merkilegt nokk, gamli góði einblöðungurinn, rakvél fyrir laus rakvélarblöð með egg báðum megin [e. double edge safety razor]. Það þýðir þó ekki að stökkva af stað og ætla sér að nota sömu aðferðir og með fimm blaða Gillette.

Það sem skiptir mestu máli er undirbúningurinn. Best er að raka sig þegar komið er úr sturtu eða baði, þá er húðin hrein og mjúk. Eftir þvott er gott að bera á sig forraksturs-olíu (e. pre shave oil) til að mýkja enn frekar. Eftir það skal taka raksápubursta sem hefur staðið í heitu vatni og sketta vel úr honum. Setja skal um það bil krónustóra klessu af raksápu eða rakkremi, ekki rakgeli, á burstann og láta freyða með því að hræra í bolla eða einhverju viðlíka. Eins og gefur að skilja á þetta við sama hvaða aðferð er notuð við raksturinn því undirbúningurinn er alltaf jafn mikilvægur fyrir húðina. Takið næst burstann og núið froðunni í andlitið með hringlaga hreyfingum. Markmiðið með þessu er að ýfa upp hárin svo þau umlykist froðu og standi vel út í loftið. Nuddið andlitið í um tvær mínútur til að mýkja hárrótina enn frekar.

Við rakstur með öryggisrakvélinni er maður að vinna með eina egg sem gefur manni mun betri stjórn á rakstrinum en með margar. Vissulega er auðveldara að skera sig en æfingin skapar meistarann í þessu eins og svo mörgu öðru. Látið blaðið koma í um 30 gráða halla að húðinni og hafið það ögn skáhallt, þannig vinnur hnífurinn best á skegginu. Það sem er þó mikilvægast þegar kemur að gamaldags rakstri er að beita ekki of miklum þrýstingi. Best er að hugsa sér að maður sé að minnka skeggið með hverri umferð frekar en að fjarlægja það. Þannig vinnur maður það hægt og rólega niður og veldur sem minnstu álagi á húðina.

Eftir raksturinn kemur svo að eftirmeðferð. Það verður að viðurkennast að af þessu hef ég ekki mikla reynslu enda sjaldan snoðrakaður, en eitt er þó öruggt. Við karlar þurfum jafn mikið að hugsa um húðina okkar og konurnar. Eftir rakstur nota margir efni sem kallast Alum. Það er til í litlum stautum sem setja má á skurði eða í stykkjum sem menn væta og nudda á andlitið. Mönnum internetsins kemur ekki saman um ágæti þess en eitt er þó víst að það svíður hvar svo sem húðin hefur rofnað, jafnvel þótt ekki blæði. Hinsvegar flýtir það fyrir bata og stöðvar blæðingu úr þeim skurðum sem kunna að hafa orðið til við raksturinn. Margir vilja meina að við notkun Alums verði húðin stíf og virki frekar hörð. Þá kemur kannski að því mikilvægasta sem við stákarnir sleppum allt of margir en það er kremið. Ég hef ekki hingað til kynnst þeirri manneskju sem er með það fullkomna húð að hún þurfi ekki að hugsa um hana. Við þurfum líka rakakrem og eftir raksturinn er fullkominn tími til að bera það á. Húðin er opin og tekur vel við og við erum nýbúnir að löðra hana í sápu sem óhjákvæmilega þurrkar hana nokkuð.

Heilbrigt skegg á heilbrigðri húð

Það eru ekki bara rakstur og þvottur sem þurrka húðina í andlitinu, heldur er sjálft skeggið sem við dáum svo margir ansi kröfuhart á húðina. Skeggið okkar er að mörgu leyti eins og ullin á blessaðri sauðkindinni, það inniheldur talsvert magn fitu og ver andlitið þannig fyrir veðri og vindum. Þessa fitu verður skeggið að draga úr húðinni og þá er það okkar hlutverk að sjá til þes að húðin eigi inni fyrir því. Það gefur hins vegar augaleið að ef við förum að maka kremum hvers konar í skeggsvörðinn myndi það leiða af sér nokkurn subbuskap. Hins vegar þurfum við að nota eitthvað sem gefur húðinni hámarksnæringu og -raka þótt notað sé lítið magn, en þar kemur að skeggolíunni. Ég viðurkenni fúslega að ég er mikill fylgismaður skeggolíu og eftir að ég hóf notkun hennar hef ég með öllu sagt skilið við hluti á við kláða og aðra ertingu sem og roða og flösu í skeggrótinni. Með notkun olíunnar komast menn fyrir fyrrnefnd vandamál án þess að sitja uppi með kremklessur í skegginu. Þar að auki gefur hún skegginu fallegan gljáa og að mínu mati virkar skeggið mun fallegra og, í ljósi þess að ég er einn af þeim sem hafa flesta liti flórunnar í skegginu, finnst mér hver og einn litur njóta sín betur. Ekki eru þó allir sem kjósa þennan gljáa. Þeir ættu þó ekki að örvænta því mikið er farið að framleiða af skeggáburði [e. beard balm] sem er öllu flóknari í samsetningu en olían en hefur álíka nærandi áhrif án þess að gefa jafn mikinn glans.

Fleiri hlutir standa mönnum til boða til að dedúa við andlitshárið. Skeggvax er eitthvað sem ég hef ekki notað í minni tíð en ég hef þó kynnt mér það nokkuð. Það er, eins og hægt er að geta sér til, notað til að hafa stjórn á skegginu, kannsi ekki jafn afgerandi og jafnan við hárgreiðslu, og getur haft ansi góð áhrif á heildarútlit og áferð skeggsins. Talsvert stífara en skeggvaxið er mottuvax en það er notað við mótun yfirskeggs, það er eitthvað sem ég hef notað talsvert og fundið út að er ansi mismunandi. Satt best að segja svo að eina leiðin til að finna sitt vax er að prófa sig áfram. Ég þarf til að mynda nokkuð stíft vax og hef leitað út fyrir landsteinana til að hafa uppi á því vaxi sem hentar mér. Þó mun ég halda áfram að vakta innlenda markaðinn í þeirri von að ég finni eitthvað íslenskt sem hentar mér því Ísland er jú best í heimi.

Ég gæti haldið lengi áfram og farið mun ýtarlegar út í þessa sálma en hér skal staðar numið. Það er, í mjög stuttu máli, ansi margt sem við getum gert til að dunda okkur við skeggið, hvort sem við viljum skarta því eða skafa það. Það sem mestu máli skiptir er að við berum okkur faglega að við þær aðgerðir sem við famkvæmum svo við lítum eins vel út og við getum. Punt er ekki bara kvennasport.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál