15 hlutir sem súpersmart konur gera

Sumar konur eru einfaldlega betur til fara en aðrar.
Sumar konur eru einfaldlega betur til fara en aðrar. Skjáskot Popsugar

Allar þessar ótrúlega flottu konur sem virðast alltaf vel tilhafðar og glæsilegar eru, þvert á það sem þú hélst, ekki ofurkonur. Nei, þær eru bara flinkar að skipuleggja sig.

Vefsíðan Popsugar tók saman 15 hluti sem ofurflottar tískudrósir gera daglega.

Þetta snýst nefnilega ekki um að eyða fúlgum fjár í nýjustu tísku, eða eiga fataskáp sem er að springa á saumunum. Þetta snýst um að tileinka sér svolítið skipulag.

15 hlutir sem súpersmart konur gera daglega:

Velja fötin sín kvöldið áður

Þetta eru engin geimvísindi. Það er sniðugt að velja fötin kvöldið áður til að forða sér frá því að lenda í veseni morguninn eftir.

Gefa sér góðan tíma

Það þýðir ekkert að „snooze-a“ út í hið óendanlega. Tíminn er dýrmætur og þessar nokkru aukamínútur sem maður græðir ef maður fer strax á fætur má til dæmis nota til að fullkomna dressið með flottum fylgihlut.

Velja rétt undirföt

Tískudrósir vita að réttu undirfötin skapa góðan grunn fyrir glæsilega múnderingu. Þær velja réttan brjóstahaldara, nærbuxur eða aðhaldsfatnað til að fullkomna lúkkið.

Fylgjast með

Tískudrósir eru með puttann á púlsinum og fylgjast gjarnan með öðrum flott klæddum konum á samfélagsmiðlum, til að mynda Instagram eða Pinterest.

Klæða sig eftir veðri

Það er ekki sérlega smart að vaða snjóskafla í pinnahælum og stuttum kjól. Alvöru skvísur klæða sig eftir veðri.

Klæða sig eftir tilefni

Það er til staður og stund fyrir allt. Flegni kjólinn er kannski ofboðslega fallegur, en hugsanlega ekki sérlega viðeigandi klæðnaður í matarboð hjá yfirmanninum.

Klæðast vel sniðnum fötum sem passa

Tískudrósir vita að ef flík passar ekki er kominn tími til að losa sig við hana.

Poppa upp útlitið með einni „rándýrri“ flík

Hefur þú velt því fyrir þér hvernig sumar konur geta alltaf litið út fyrir að vera sérlega vel tilhafðar, þrátt fyrir að vera bara í gallabuxum og bol?

Að öllum líkindum eru þær bara flinkar að velja sér fylgihluti sem poppa upp dressið, líkt og fallega eyrnalokka, handtösku eða girnilegt leðurbelti.

Einn fylgihlutur sem lítur út fyrir að vera „rándýr“ getur gert kraftaverk fyrir annars einfalt heildarútlit.

Velja rétta fylgihluti

Coco Chanel sagði: „Þegar þú ert að velja fylgihluti skaltu alltaf fjarlægja síðasta hlutinn sem þú settir á þig.“

Smart konur vita hvenær þær eiga að hætta, því það er auðvelt að skreyta sig of mikið.

Slæpast ekki í fínu fötunum

Sérlega smart konur ganga ekki í krumpuðum fötum. Þær hangsa ekki heima hjá sér í silkiblússum og „blazer“-jökkum. Til þess eru kósí föt.

Hengja upp og brjóta saman

Ef þú fleygir fötunum þínum í hrúgu munu þau verða krumpuð. Tískudrósir hugsa vel um fötin sín.

Vita hvenær háir hælar eiga við og hvenær lágbotna skór eru málið

Það er ekkert sérlega smart að skrönglast um strætin á allt of háum hælum.

Vel tilhafða konan á bæði þægilega flatbotna skó og glæsilega háhælaða spariskó sem virka vel við hvaða tilefni sem er.  

Sortera fötin sín

Eins og áður kom fram hugsa tískudrósir vel um fötin sín. Þær sortera fötin sem þurfa að fara í hreinsun frá hinum sem fara í venjulegan þvott.

Auk þess gaumgæfa þær fötin sín eftir notkun, með því móti lenda þær ekki í klandri þegar það er skyndilega stærðarinnar blettur á eftirlætisblússunni næst þegar þær ætla í hana.

Þær eru við öllu búnar

Það er hægt að skipuleggja sig út í rauðan dauðann, en það kemur ekki í veg fyrir óhöpp. Tískudrósir vita að það borgar sig að vera við öllu búinn, þess vegna eiga þær nælur, títuprjóna og tvöfalt límband við höndina. Bara til öryggis.

Eltast ekki við tískustrauma

Glæsilegar konur eltast ekki við tískustrauma. Þess í stað eiga þær fullan skáp af klassískum flíkum sem fara aldrei úr tísku. Með því móti eiga þær alltaf eitthvað að vera í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál