Bað hennar á búðargólfinu

Páll Sveinsson gullsmiður.
Páll Sveinsson gullsmiður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Páll Sveinsson, gullsmiður í Jóni og Óskari, segir að ameríska leiðin sé alltaf að verða vinsælli þegar kemur að trúlofunarhringum, þ.e. að herrann velji og kaupi hringinn. Páll segir starf gullsmiðsins vera gefandi og þar fær sköpunargáfan gjarnan að njóta sín. 

Finnst þér tískan í trúlofunarhringum eitthvað vera að breytast?

„Í grunninn þá eru þetta mikið til nokkuð hefðbundnar gerðir af hringum en það sem er helst að breytast er það að fólk vill hafa þá meira skreytta, mjög mikið með demöntum og eða leturgreftri hvort sem það er með upphafsstöfum í höfðaletri, rúnum eða fingrafari. Svo finnst mér það vera að aukast að bera fleiri hringa saman.

Það má líka segja að alþjóðavæðingin hafi töluverð áhrif hjá okkur því að ameríska leiðin þar sem herrann kaupir demantshring sem trúlofunarhring er alltaf að verða vinsælli,“ segir Páll.

Þegar Páll er spurður út í breidd á hringum segir hann að í dag séu 5 og 6 mm hringar vinsælastir.

„Þessir hringar eru aðeins kúptir að innan og utan þar sem fólk hefur frelsi til þess að setja nánast hvaða steinasetningu sem er í hringana síðar, ákveði það ekki að gera það strax. Það er líka nokkuð algengt að nota sirka 4 mm hring hjá dömunni sé hún búin að fá demantshringinn eða er að vonast eftir honum síðar og herrann tekur þá oftast breiðari hring,“ segir hann.

Eru menn að kaupa trúlofunarhringa sjálfir eða eru pörin að velja hringa saman?

„Algengast er að pörin komi saman að velja hringana og fólk er oftast búið að ræða það hvað það vill og hefur töluverðar skoðanir á því. Fólk hefur líka áhuga á því að vita hvað er í boði og eða hvernig hægt er að græja sérþarfir.“

Hvort er algengara að konan fái bara trúlofunarhring eða fólk kaupi hringa í settum?

„Það er ennþá þannig að það er vinsælla að kaupa trúlofunarhringa í settum þó svo að það sé alltaf að verða vinsælla að kaupa demantshringinn.“

Hvað er vinsælast núna, gull, hvítagull eða silfur?

„Gult gull er langvinsælast í pörum en hvítagull í demantshringum. Það fer nefnilega mjög vel saman að bera hvítt og gult gull saman.

Við smíðum líka töluvert af hringum í palladium, platínu, silfri og stáli sem eru allt hvítir málmar.“

Þegar kemur að demantshringum – er eitthvað eitt vinsælla en annað?

„Já, það eru sérstaklega vinsælir hringar (kallaðir Palla-hringar í daglegu tali hjá okkur, því ég smíða svo mikið af þeim,“ segir hann og hlær og bætir við:

„Þetta eru eins steins demantshringar, sem við sérsmíðum en við hönnunina á honum var það haft að leiðarljósi að hann væri glæsilegur borinn einn og sér en félli einnig mjög vel upp að öðrum hringum. Því það er orðið svo algengt að dömur kjósi að bera þá með trúlofunar- eða giftingarhringnum.

Sumir kjósa líka að hafa demanta niður axlirnar á hringnum og gerir það ansi mikið fyrir útlitið þó svo að verðið hækki kannski ekki svakalega mikið því það eru mun minni demantar í hliðunum.

Alliance-hringar eru líka mjög vinsælir og klassískir, oft gefnir í morgungjöf þar sem margir eru hrifnir af þeirri hugmynd að bæta fleiri steinum við síðar, t.d. með fjölgandi börnum. Þar sem hver steinn táknar fjölskyldumeðlim eða bara til þess að safna í hálf eða alsettan demantshring, (demantssnúru).“

Hefur þú fundið fyrir því að fólk vilji trúlofunarhringa eins og stjörnurnar úti í heimi?

„Það er ekki mikið um það, þó svo að það verði kannski til þess að fólk spyrji um litaða demanta

sem getur verið mjög gaman.“

Ertu mikið beðinn um að sérsmíða hringa fyrir fólk? Hvað vill það þá helst?

„Ó já, það er heilmikið um það, stundum virðist fólk þó ekki hafa hugmynd um að það sé möguleiki að sérsmíða eða þróa hugmynd /hönnun með fólki.

Í trúlofunarhringum þá snýst þetta oft um lagið á hringum, efnisval, steinaísetningar og allrahanda munstur og áletranir. Stundum um að nýta hluta og/eða smíða upp úr gömlu þannig að efnið sé notað í þá nýju.

Í steinhringum og þess háttar sérsmíði fær maður oftast einhverjar grunnupplýsingar um hvar á að bera hringinn, hverslags skarti viðkomandi er að leita að, t.d. stærð efnisval o.fl. og gerir teikningu eða þá að fólk treystir manni til þess að smíða strax.“

Hvað hringa varðar, er fólk að nota sömu trúlofunar- og giftingarhringa eða er splæst í nýtt sett?

„Það er algengt að gömlu trúlofunarhringarnir séu nýttir aftur, en það er líka mjög algengt

að þeim sé breytt á einhvern veg t.d. með því að handgrafa og eða setja demanta í þá eða smíða hringa við og fella saman.“

Manstu eftir einhverri skemmtilegri sögu sem tengist trúlofunarhringum?

„Já, það kemur manni oft að óvart hvað það eru margir sem að eru tæpir á tíma, eru að fara að gifta sig samdægurs en hafa samt miklar skoðanir og kröfur um hvernig hringarnir eiga að vera. Sem getur verið gaman og krefjandi hvort náist að smíða í réttum stærðum og jafnvel með demöntum í tíma. Sérstaklega man ég eftir einum sem var búinn að eyða drjúgum tíma með elskunni í að velja hinn fullkomna demantshring og um leið og hann var kominn með demantshringinn í hendurnar, fór hann á skeljarnar í búðinni, fyrir framan okkur afgreiðslufólkið og kúnnana sem í búðinni voru og bað konunnar. Svona uppákomur eru skemmtilegar og mjög eftirminnilegar, langar samt að taka það fram að svarið var Já.“

Hvað er mest heillandi við starf gullsmiðsins?

„Ætli það sé ekki sköpunin, að smíða og hanna hluti. Fá að handleika, eiga við mismunandi form og efni. Fjölbreytileikinn er líka gríðarlega mikill og það að þróast og verða betri ásamt samskiptum við fólkið er mjög gefandi.“

Páll segir að hringar með fingrafari séu að verða vinsælli.
Páll segir að hringar með fingrafari séu að verða vinsælli. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Demantshringur úr hvítagulli.
Demantshringur úr hvítagulli. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál