Þrjóskaðist í gegnum viðskiptabraut

Hilda er mikið náttúrubarn, og sækir m.a. innblástur í fugla …
Hilda er mikið náttúrubarn, og sækir m.a. innblástur í fugla og örnefni. Nanna Dís

Borghildur Gunnarsdóttir, eða Hilda líkt og hún er kölluð, hefur getið sér gott orð fyrir fatnað sem hún hannar undir nafninu Milla Snorrason. Hilda er með mörg járn í eldinum og sendi nýverið frá sér fatalínuna Vondugil, sem hún frumsýndi á Hönnunarmars.

Þrátt fyrir miklar annir gaf Hilda sér tíma til að sitja fyrir svörum Smartlands. 

Hvaðan kemur nafnið Milla Snorrason?

„Langömmusystir mín hét Emilía Snorrason og var kölluð Milla. Mig langaði ekki að nota mitt nafn svo ég reyndi að finna eitthvað annað sem væri samt persónulegt og með sögu. Milla var mikil handavinnukona og eins konar hönnuður síns tíma svo þetta passaði vel. Það mikilvægasta er samt það að mér finnst nafnið fallegt bæði í útliti og hljóm.“

Hvenær ákvaðst þú að leggja fatahönnun fyrir þig? Hefur þetta kannski alltaf blundað í þér?

„Já sennilega hefur þetta alltaf blundað í mér og ég er til dæmis alin upp á mjög skapandi heimili. En ég lét þó ekki undan fyrr en ég var búin að þrjóskast í gegnum fjögur ár á viðskiptabraut í Verzló, klára fornámið í Myndlistarskólanum í Reykjavík og vinna tvö ár sem blaðamaður á Fréttablaðinu. Þá small þetta allt í einu.“

Hvert sækir þú innblástur?

„Ég held að flestir í skapandi vinnu séu sammála því að innblástur geti komið hvaðan frá sem er og það er algjörlega þannig hjá mér. Ég er þó alltaf mjög heilluð af náttúrunni og nota hana mikið til dæmis í mynstur og liti. Svo elska ég 3. - 5. áratuginn varðandi snið og efniskennd, en skoða líka mikið götutísku og elska að pæla í persónulegum stíl og lífshögum fólks.“

Hvernig vinnur þú fötin þín, hvernig er ferlið frá hugmynd og að tilbúinni flík?

„Ég er á vissan hátt alltaf að vinna, alltaf að horfa í kringum mig, taka myndir eða vista myndir sem ég sé á netinu og svo er þetta að gerjast í huganum í einhvern tíma. Þegar ég byrja að hanna línu fer ég yfir allt sem ég er búin að sanka að mér og vinn úr því. Mér finnst best að vera búin að gera smá rannsókn á efnum áður en ég fer að skissa því þá verður sú vinna auðveldari. Þegar flíkurnar eru komnar á blað hefst sníðagerðin og að lokum eru flíkurnar saumaðar. Svo finnst mér mjög gaman að bæta nokkrum flíkum við í lokin sem passa inn í línuna, en hafa þó ekki verið settar niður á blað. Þær koma þá frekar út frá því að leika sér með efnin, litina og formin sem eru í kringum mann í stúdíóinu.“ 

Hvaða efnivið finnst þér skemmtilegast að vinna með?

„Náttúruleg efni og fallega liti.“

Margar flíkurnar þínar skarta blómamynstri, ertu mikið náttúrubarn?

„Já ég er algjört náttúrubarn og veit ekkert betra en að eyða degi í fjallgöngu og flakk í íslenskri náttúru. Einnig er ég mjög áhugasöm um fugla, flóru og örnefni og er sífellt að bæta við mig þekkingu.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið þitt?

„Það er svo margt skemmtilegt. Sköpunin sjálf er kannski efst á blaði, mér finnst hugmyndasöfnunin rosalega skemmtileg og það að hanna línu og sjá hana verða að veruleika er ótrúlega góð tilfinning. Ég fíla einnig mjög vel að geta stýrt tímanum mínum sjálf og svo finnst mér frábært hvað ég er alltaf að læra nýja hluti í þessari vinnu, enda ansi mörg svið sem maður þarf að kunna inn á til að reka fatahönnunarfyrirtæki.“

Hvað finnst þér gaman að gera í frístundum þínum?

„Ég fer í upp í sveit og í fjallgöngur eins oft og ég get, er dugleg að fara á listasöfn eða kaffihús með vinkonum mínum og góðar fjölskyldustundir eru líka nauðsynlegar. Svo stunda ég afró í Kramhúsinu þrisvar í viku sem er eitt það skemmtilegasta sem ég veit.“

Átt þú þér einhvern eftirlætis stað, innanlands sem utan?

„Seljavallarlaug var lengi uppáhalds staðurinn minn en ég nýt þess ekki eins vel að fara þangað núna því hún er orðin ansi vinsæl. Það er kannski sjálfselskt en ég vil helst að mér líði eins og ég sé ein í heiminum þegar ég er að þvælast í náttúrunni. Ég elska samt þetta svæði undir Eyjafjöllum enda er ég ættuð þaðan, fjölskyldan mín á bústað þar og ég á margar minningar þaðan. Svarta fjaran þarna er virkilega mögnuð og að sitja þar og finna kraftinn frá sjónum er ein besta hugleiðsla sem ég veit um.“

Hvernig væri uppskrift þín að fullkomnum degi?

„Fjallganga að sumri til á Íslandi í góðra vina hópi með næs nesti. Heitur pottur og góður matur mætti alveg fylgja eftir á.“

Ertu með eitthvað skemmtilegt verkefni í bígerð?

„Ég var að sýna nýja línu að nafni Vondugil á Hönnunarmars. Fyrsta hugmyndin að henni kviknaði þegar ég gekk Laugaveginn í fyrra en Vondugil er eitt örnefnanna á þeirri leið og ég hannaði mynstrin í línunni út frá myndum sem ég tók af snjóalögum. Núna er ég á fullu að vinna í framleiðslunni og fyrstu flíkurnar fara að týnast inn í verslunina Kiosk í byrjun sumars.“

Hilda sendi nýverið frá sér nýja línu að nafni Vondugil.
Hilda sendi nýverið frá sér nýja línu að nafni Vondugil. Hanna Birna Geirmundsdóttir
Hildu finnst skemmtilegast að vinna með náttúruleg efni og fallega …
Hildu finnst skemmtilegast að vinna með náttúruleg efni og fallega liti. Hanna Birna Geirmundsdóttir
Nýja línan er ákaflega klæðileg.
Nýja línan er ákaflega klæðileg. Hanna Birna Geirmundsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál