„Ég er að gera þetta fyrir sjálfa mig“

Eyrún Telma fékk áhuga á húðflúri á unglingsárunum.
Eyrún Telma fékk áhuga á húðflúri á unglingsárunum. Ljósmynd/Rúnar Geirmundsson

Eyrún Telma Jónsdóttir vekur víða athygli enda skartar hún fjölmörgum húðflúrum. Eyrún er rétt að byrja og stefnir á svokallað „body suit“ þar sem allur líkaminn er þakinn tattúum. Eyrún segir almennt viðhorf fólks til húðflúra fara batnandi með árunum en hún verður þó vör við töluverða fordóma og fær reglulega skrýtnar spurningar um flúrin.

Ætli ég hafi ekki verið á unglingsárunum þegar ég fékk svona mikinn áhuga,“ segir Eyrún, spurð hvenær áhuginn á húðflúrum hafi fyrst kviknað. Ég hafði alltaf hugsað að fá mér „nokkur þegar ég yrði stór“ en það var fljótt að þróast út í þá hugmynd að mig langaði til þess að vera með mikið af húðflúrum,“ útskýrir Eyrún sem fékk sér fyrsta tattú-ið þegar hún var 18 ára. „Ég er móður minni afar þakklát í dag fyrir að hafa bannað mér að fá mér flúr fyrir 18 ára aldur, þó svo að það hafi verið það fyrsta sem ég gerði um leið og ég varð 18. Það væri líklegt að ég sæi eftir einhverju í dag ef ég hefði byrjað of ung. Hugmyndir og skoðanir 16 ára unglings geta breyst mikið á tveimur árum.“ Að sögn Eyrúnar líst móður hennar bara ágætlega á öll flúrin hennar í dag. „Já, við erum meira að segja með „mæðgna“-tattú á úlnliðnum.“

Eyrún á erfitt með að svara þegar hún er spurð út í hvaða flúr sé í uppáhaldi hjá henni. „Það er svolítið erfitt en eins og er þá myndi ég segja að handarbakið, hnúarnir og hálsinn væru í uppáhaldi.“ Eitt mest áberandi húðflúr Eyrúnar er einmitt það sem er framan á hálsinum, það fer ekki fram hjá neinum. Hún segir það hafa verið stórt skref að láta tattúvera á sér hálsinn. „Þá var ég í fyrsta skipti stressuð fyrir flúri, það var stórt skref. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið þægilegt en alls ekki svo slæmt heldur. Það kom á óvart,“ segir Eyrún spurð út í sársaukann sem fylgdi því að láta húðflúra á sér hálsinn.

„Það er svolítið erfitt en eins og er þá myndi …
„Það er svolítið erfitt en eins og er þá myndi ég segja að handarbakið, hnúarnir og hálsinn væru í uppáhaldi,“ segir Eyrún spurð út í sín uppáhaldsflúr.

Nýverið fékk húðflúr sem prýðir Eyrúnu viðurkenningu á Tattoo Expo-ráðstefnunni. Það var Dagur á Bleksmiðjunni sem gerði flúrið sem er í svokölluðum Old School-stíl. „Þetta er flúr sem við vorum búin að tala saman um í svolítinn tíma um að bæta við í Old School-ermina mína. Dagur endaði á að taka bæði fyrsta og annað sætið í keppninni,“ segir Eyrún sem fer alltaf á Bleksmiðjuna til að bæta á sig tattúum. „Ég er búin að vera langmest hjá Degi á Bleksmiðjunni. „En Sigrún Rós gerði svo vinstri ermina mína. Svo eru fleiri á stofunni sem ég hef farið til líka. Þau eru öll rosalega klár. Stofan er einnig rosalega dugleg við að taka inn frábæra gestaflúrara. Þá finnst mörgum mjög gaman að nýta sér tækifærið og fá sér nýtt flúr þar sem að biðlistinn er langur hjá flestöllum á stofunni.“

Það getur verið kostnaðarsamt að fá sér húðflúr en það er vel þess virði að mati Eyrúnar. „Á meðan sumir vilja hafa rándýr listaverk uppi á vegg heima hjá sér að þá kýs ég frekar að ganga um með þau föst á líkamanum mínum,“ segir Eyrún sem hefur ekki nákvæma tölu yfir hvað hún hefur eytt miklum pening í húðflúr. „Ég veit alla vega að sú upphæð er há. En ég er að minnsta kosti að eyða peningum í áhugamálið mitt í stað áfengis eða tóbaks.“

Alveg sama hvað öðrum finnst

Eyrún verður vör við að sumt fólk sé með fordóma gagnvart húðflúrum en telur almennt viðhorf þó vera að breytast. „Viðhorf fólks hefur breyst mikið síðustu ár en ekki nógu mikið finnst mér. Í flestum tilfellum er það aðeins eldra fólk sem er með fordóma, en það kemur alveg fyrir að unga fólkið er með fordóma líka.“ „Ég hef einu sinni orðið var við fordóma frá mjög ungum krökkum, það var í Kringlunni þegar ég var að vinna. Ég var í kaffipásu og var að rölta til baka inn í búð og þá heyri ég krakkana fyrir framan mig hvíslast á og segja: „Sjáðu konuna fyrir aftan þig“ og „Passaðu þig á henni hún er pottþétt hættuleg“. Áður en ég gat komið upp orði þá hlupu þau áhyggjufull í burtu. Ég gat nú ekki annað en skellihlegið að þessu,“ útskýrir Eyrún Telma.

„Ég gæti sennilega skrifað niður nokkrar blaðsíður af sögum af því sem ég hef lent í hjá fólki með neikvæðar skoðanir gagnvart flúrum en það verður að bíða til betri tíma. Ég get til dæmis ekki farið í sund án þess að a.m.k. ein manneskja láti mig heyra það. En ég fæ mjög oft hrós í sundi líka, sem mér finnst ótrúlega gaman. Fólk segir oft „fyrirgefðu hvað ég er að stara mikið, mér finnst flúrin þín bara svo flott og það er svo gaman að skoða þau“. Jákvæðar athugasemdir og hrós eru dásamleg, verum dugleg að hrósa hvort öðru.“

Eyrún Telma er rétt að byrja og stefnir á svokallað …
Eyrún Telma er rétt að byrja og stefnir á svokallað „body suit“. Ljósmynd/Rúnar Geirmundsson

Fólk er almennt forvitið um húðflúr að sögn Eyrúnar og þess vegna fær hún gjarnan skrýtnar spurningar út á sín tattú. „Já, ég fæ langoftast þessa klassísku spurning: „Hvað ætlarðu eiginlega að gera þegar þú ert orðin gömul og krumpuð? En skrítnasta spurning sem ég hef fengið er samt: „Hatar þú sjálfa þig?“ Þá vildi viðkomandi meina að mér hlyti að líða eitthvað illa og hata sjálfa mig nógu mikið til þess að láta „pynta“ mig tímunum saman í þeim eina tilgangi að geta „falið“ mig í eigin skinni undir öllum flúrunum. Það er ekki annað hægt en að hlæja að þessu! Þvílík vitleysa,“ segir Eyrún. „Auðvitað hafa allir sínar skoðun á húðflúrum, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð. Sem betur fer að þá er mér alveg sama hvað öðrum finnst vegna þess að ég er að gera þetta fyrir sjálfa mig. Húðflúr eru eitt af mínum stærstu áhugamálum.“

Eyrún en hvergi nærri hætt en hvernig tattú er næst á dagskrá? „Fram undan er bara að halda áfram með það sem ég er byrjuð á. Seinni ermin verður svo kláruð vonandi í vetur. Annars er næst á dagskrá eftir það að byrja á „backpiece-i“ í Old School-stíl sem ég er langmest spennt fyrir. Svo er bara að vinna sig hægt og rólega í átt að „body suit“. Er það ekki eitthvað?“

Þetta húðflúr fékk viðurkenningu á síðastu Tattoo Expo-ráðstefnunni.
Þetta húðflúr fékk viðurkenningu á síðastu Tattoo Expo-ráðstefnunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál