Birta snýr aftur með nýtt merki

Birta Björnsdóttir fatahönnuður er komin með nýtt merki, By Birta.
Birta Björnsdóttir fatahönnuður er komin með nýtt merki, By Birta.

Birta Björnsdóttir varð þekkt á einni nóttu þegar hún stofnaði fatamerkið Júniform. Í dag stendur Birta á krossgötum því í fyrra seldi hún Júniform. Nú er hún er búin að stofna annað merki, By Birta. Aðdáendur Birtu þurfa þó ekki að hafa áhyggjur, því þótt hún sé búsett í Barcelona, þá opnaði hún vefverslunina Bybirta.com og því er hægt að kaupa beint í gegnum hana. 

„Nýja merkið mitt er mun persónulegra þar sem að ég sauma allar flíkurnar sjálf hér úti. Þessar flíkur eru mest megins „one off“ flíkur, það er að segja ein af hverri. Ég fer í leiðangra inn í Barcelona borg og sanka að mér efnum og öðrum dásemdum, þá einungis í eina og eina flík. Það er óneitanlega miklu meira efnaúrval hér úti og hugmyndirnar þess vegna ótakmarkaðar. Mér finnst ótrúlega gaman að vinna þetta sjálf og nostra mikið við hverja flík og legg mikla ást í hana. Ég bý uppi í fjalli rétt fyrir utan Barcelona umkringd skógi og náttúru og er með stúdíóið mitt heima. Ég vakna á morgnana og hanna þá það sem mig langar á þeim tíma. Stundum tek ég í saumavélina, eða fylgihlutina, nú eða málningarpensilinn. Ég er að reyna með þessu nýja merki að fara frá hugmyndinni um framleiðslu í miklu magni og kvöðunum sem því fylgir. Ef ég læt sauma 100 peysur þarf ég að selja þær til að borga fyrir framleiðsluna á þeim, sem þýðir að þær þurfa að vera seljanlegar. Ef að peysa selst ekki hjá mér nú er bara dagur af vinnu farinn og ekki meir. Ég get gert það sem ég vil og þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvort það selst eða ekki,“ segir Birta. 

Þegar hún er spurð að því hvort hún verði með tískulínur tvisvar á ári segir hún svo ekki vera. 

„Ég mun vinna þetta frá degi til dags og verð einmitt ekki með sérstakar tískulínur. Þó svo að vilji oft til að ég sé í stuði fyrir „þetta look“ núna og búi til svipaðar flíkur í smá tíma. Það er voða gaman að geta saumað aðeins eina flík en ekki alltaf prótótýpu sem á að fara svo í framleiðslu. Ég næ að gera flíkurnar miklu persónulegri fyrir vikið. Ég mun einnig bjóða upp á persónulega þjónustu við kúnnana mína og get sérsumað flíkur byggðar á því sem er í boði á heimasíðunni. Ef viðkomandi sér flík í vefversluninni sem er uppseld væri mögulega hægt að gera aðra „svipaða“ - en þó ekki alveg eins,“ segir hún. 

Ég spyr Birtu út í Júniform og hvernig fatamerkið hafi þróast. Á þessum 12 árum hefur ýmislegt gengið á. 

„Júniform var stofnað árið 2004. Það merki hefur svo sannarlega gengið í gegnum margar og miklar breytingar í gegnum árin. Það byrjaði sem lítil vinnustofa sem varð svo að verslun, sem varð svo að stærri verslun og svo framvegis. Það ævintýri gekk vonum framar og Júniform flutti svo í enn stærra húsnæði á Ingólfsstræti 8. Þar rak ég verslun ásamt vinnustofu í 5 ár. Við hjónin höfðum lengi verið með mikla útþrá en lífið virtist ganga of vel á Íslandi til að geta farið frá því, svo komu börn og alltaf tafðist litla ævintýrið okkar. Það kom samt sá dagur að við ákváðum að slá til og ég lokaði versluninni sem þá gekk afar vel og við fórum á vit ævintýranna. Í kjölfarið af því tók hún Hera Björk hin mikla söngkona við sölu á merkinu í verslunin sinni Púkó og Smart. En ég hélt áfram að hanna fyrir merkið frá Barcelona. Ári seinna opnaði svo Júniform á Strandgötu Hafnarfirði  þar sem vinkona mín hún Helga Sæunn Árnadóttir sá um að reka fyrir mig. Ég hafði þá um nokkurra ára skeið oft ætlað mér að snúa mér að öðru en fram liðu stundir og merkið virtist alltaf elta mig eins og gömul ást. Það var svo árið 2014 sem ég ákvað að segja skilið við merkið og seldi það til verslunarinnar Öxneyjar. Ég fylgdi því eftir um nokkurt skeið þangað til leiðir skildust hjá eigendum þeirrar verslunar. Nú er Júniform í eigu Ingibjargar Þorvaldsdóttur. Ég hef ekki verið að hanna fyrir Júniform í um ár núna,“ segir Birta.

Fyrir ári síðan fór hún í listnám og hefur verið í portrait málun og svo keyptu þau hjónin hús sem þau gerðu upp. Eftir þessa pásu frá fatahönnun kom upp þrá til að byrja að hanna á ný. 

„Ég var farin að finna fyrir þörf að byrja að hanna aftur. Það hefur jú verið mitt líf í 15 ár. Mig langaði að byrja ferskt með nýtt merki með mínu nafni og hafa það lítið og persónulegt. Ég hef oft hugleitt að láta framleiða fyrir mig erlendis og farið marga hringi með það. En það sem ég elska er að búa til í höndunum sjálf, bæði fatnað og fylgihluti. Þess vegna hentar þetta fyrirkomuleg svo vel fyrir mig,“ segir hún. 

Hvað lærðir þú af Juniform-ævintýrinu? 

„Ég er ólærð í þessu fagi, en hönnun hefur alltaf verið mín ástríða. Ég hef unnið við það og lifað af nánast allt mitt líf. Ég hef lært svo ótrúlega mikið af því að hanna allt sjálf, framleiða og reka verslun og vinnustofu í öll þessi ár. Þetta hefur jú allt sína galla og kosti, en þeir sem þekkja rekstur vita það að það er aldrei frí. Ég held að þessi reynsla sé ómetanleg og ekki hægt að bera saman við neinn skóla. Það sem ég lærði einna helst er hvernig fötum konur vilja klæðast. Það er auðvelt að hanna fatalínu sem smellpassar á módel á sýningapöllum og í myndatökum, en að hanna föt sem konur geta klæðst í dags daglega og liðið vel í er allt annað. Við erum ekki allar með fullkomna kúlurassa eða 60 cm mitti,“ segir hún og hlær.

„Það að vinna í beinum samskiptum við kúnnana eins og ég gerði var ómetanlegt. Það sem skiptir miklu í minni hönnun er að gera föt sem gera konuna sem í þeim er glæsilega, fallega og sérstaka.“

Þegar Birta er spurð að því hvort hún sé ekkert að fara að flytja heim segir hún svo ekki vera. 

„Við elskum að búa hér það er engin spurning og við erum ekki á heimleið eins og er en ég verð að viðurkenna að heimþráin kallar stundum. Við erum hér á fimmta ári í Barcelona. Það hefur sína galla og kosti að vera hér, eins og á Íslandi. Ég sakna oft hversu einfalt og lítið Ísland er og bara nýtt tungumál flækir alla hluti hér. Ég elska að geta hringt í þjónustufulltrúann minn á Íslandi og segja bara „hæ þetta er Birta“! Við fjölskyldan verðum á landinu yfir jólin og hlakka ég mikið til að koma heim í íslensk jól, það er jú ekki mikil jólastemmning hér í sólinni í kringum pálmatrén.“

Þegar Birta er spurð út í það hvernig viðbrögð hún haldi að hún vona innilega að þetta muni ganga vel. 

„Nú hef ég hér í ýmsu að snúast bæði í máluninni og hönnuninni. Ég hef ekki hugmynd um það hvernig verður tekið í vefbúðina, en nú þegar er samt sala byrjuð. Ég vona sko af öllu mínu hjarta að þetta eigi eftir að ganga vel, en þar sem ég sauma þetta allt sjálf, er ekki mikið magn í framleiðslu hverju sinni, en það er einmitt það sem er svo skemmtilegt,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál