Vildi ekki vera í kjól

Ebba Guðný Guðmundsdóttir.
Ebba Guðný Guðmundsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ebba Guðný Guðmundsdóttir heilsukokkur valdi sér óhefðbundin fermingarföt, var hæstánægð með kökuhlaðborðið í veislunni og tók glöð og undrandi við fjölmörgum heillaóskaskeytum.

„Ég fermdist vorið 1989 í Seljakirkju og prestur var séra Valgeir Ástráðsson,“ segir Ebba Guðný Guðmundsdóttir, heilsukokkur og matarbókahöfundur.

„Mér fannst fermingarfræðslan mjög skemmtileg og við vinkonurnar mættum samviskusamlega saman í messu á sunnudögum; ég man aldrei eftir því að mamma og pabbi hafi farið með mér, eins og tíðkast núna. Ég var smá stressuð yfir ritningarorðunum, var hrædd um að mismæla mig, og hafði líka áhyggjur af því að ég myndi óvart stíga á kyrtilinn uppi við altarið. En allt fór þetta vel. Við vorum svakalega mörg sem fermdumst en á þessum tíma var Seljaskóli, skólinn minn, sá fjölmennasti á landinu. Í ofanálag fermdumst við með Ölduselsskóla, þannig að það var fullt út úr dyrum í kirkjunni og margir þurftu að standa. Athöfnin var hátt í þriggja klukkustunda löng og reyndi á þolinmæðina.“

Buxur og vesti

Fékkstu aðstoð við að velja fermingarfötin?

„Ég pældi ekki mjög mikið í tísku þegar ég var unglingur, aftur á móti var ég stundum óánægð með útlitið, fannst ég of stutt og of feit og annað í þeim dúr. Ég man að ég vildi alls ekki vera í kjól á fermingardaginn, mér fannst eins og það myndi ekki klæða mig. Það hefur heldur betur breyst, því núna fer ég í kjól við öll hátíðleg tækifæri. Ég þurfti að semja við mömmu og fékk í gegn að vera í hvítri skyrtu, rósóttu vesti og svörtum buxum – og var svo með slaufu um hálsinn. Þetta var afar óhefðbundið fermingardress, svo ekki sé meira sagt.

Svo fékk ég mér auðvitað permanent og var með bleikt blúnduhárband, bundið í stóra slaufu. Ég var mjög ánægð með þetta allt saman og fannst ég vera mjög fín. Núna skelli ég upp úr þegar ég horfi á fermingarmyndina. En á sama tíma finnst mér ég vera algjört krútt. Mér er hlýtt til Ebbu litlu, hún var svo góð stúlka.“

Snittur frá frænku

Fermingarveislan – varstu höfð með í ráðum þegar kom að veislumatnum?

„Fermingarveislan var haldin heima og ég man ekki eftir að hafa tekið þátt í undirbúningnum eða aðstoðað á nokkurn hátt. Mér finnst það bæði fyndið og furðulegt þegar ég lít til baka, því núna hafa krakkar skoðun á svo mörgu, að ég held. Hanna dóttir mín fermdist til dæmis í fyrra og hún vildi vera með í að skipuleggja veisluna með okkuro foreldrunum. Sjálf var ég mjög ánægð með mína veislu, ég gerði að mig minnir engar kröfur og lét mömmu og pabba sjá um allt.

Ég man að amma hjálpaði mömmu við að þrífa alla eldhúsinnréttinguna, bæði að innan og utan, helgina fyrir ferminguna og það var mikill undirbúningur á heimilinu. Í veislunni var boðið upp á kaffihlaðborð með kökum, brauðtertum og snittum. Systkini foreldra minna komu öll með einn eða tvo girnilega rétti á veisluborðið og allir hjálpuðust að, þannig var hefðin í fjölskyldunni. Og annar pabbanna minna kom færandi hendi með kransaköku og marsipantertu, en hann átti í þá daga bakaríið í Stykkishólmi.“

Óvæntar kveðjur

Heppnaðist dagurinn vel?

„Mér fannst fermingardagurinn minn ákaflega skemmtilegur og hátíðlegur. Ég man að mamma var ögn stressuð og ég botnaði ekkert í því. Þessu hef ég oft hlegið að í seinni tíð, því ég er alveg eins og hún núna. Enda geri ég alltaf mest á mínu heimili, eins og mamma. Og þegar maður sér um allt sjálfur verða aðrir fjölskyldumeðlimir ósjálfrátt mjög óvirkir. Rétt eins og við pabbi og bróðir minn biðum eftir mömmu á fermingardaginn, án þess að hjálpa nokkuð; hún hafði sig síðust til og skúraði sig svo út þegar við fórum í kirkjuna.

Ég fékk heilmikinn pening í fermingargjöf, það þótti frekar óvenjulegt. Mér fannst það gott mál, man ég. Svo fékk ég marga fallega skartgripi, bæði hringa og hálsmen, biblíu, penna með nafninu mínu og margar orðabækur, og var voðalega ánægð með allt. Mér bárust líka mörg skeyti með heillaóskum frá ættingjum og fjölskylduvinum. Það þótti mér mjög vænt um og finnst enn. Ég hafði auðvitað aldrei áður fengið símskeyti og ég man að ég var steinhissa þegar ég opnaði umslögin og las allar fallegu kveðjurnar. Ég minnist fermingardagsins með mikilli hlýju; ég var alsæl og þakklát, fannst ég heppin að fá að fermast og eiga svona góða að.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál