Áföllin komu Thelmu áfram

Thelma Dögg Guðmundsen opnaði vefinn Guðmundsen.is á dögunum.
Thelma Dögg Guðmundsen opnaði vefinn Guðmundsen.is á dögunum. Ljósmynd/Vaka Njáls

Thelma Dögg Guðmundsen opnaði sinn eigin vef á dögunum, Guðmundsen.is. Sjálf kynntist ég Thelmu örlítið þegar hún keppti í Ísland Got Talent í fyrra en hún syngur ákaflega vel og heillaði áhorfendur upp úr skónum. Thelma segir að áföll í lífinu hafi komið henni á þann stað sem hún er núna á.

„Ég hef alltaf verið mjög sjálfstæð en ég var mjög ung þegar ég þurfti að fara að hugsa um mig sjálf. Ég flutti ung út af heimilinu og þurfti að læra á lífið upp á eigin spýtur. Ég gekk í gegnum ýmis áföll og mest þegar ég veiktist alvarlega 2014. Smá klisja en satt, ég fór að endurmeta lífið og fór að einblína meira á hluti sem mig langaði að gera í lífinu og hætta að velta mér upp úr því hvað öðrum fannst. Ég fór í endurhæfingu uppi á Grensás og í framhaldi af því fór ég í starfsendurhæfingu hjá VIRK. Við tók mikil sjálfskoðun en einmitt í framhaldi af því ákvað ég að skella mér í Ísland Got Talent, gera eitthvað alveg nýtt og öðruvísi. Það stækkaði rammann heldur betur og hef ég ekki verið að gera neitt annað nema stækka hann enn meira síðan þá. Þannig að það má segja að ég sé sjálfstæð og sjaldan auður tími hjá mér. Það gefur mér mikið að prófa nýja hluti og ögra sjálfri mér,“ segir Thelma. 

Í fyrra opnaði Thelma Snapchat-reikning sem varð strax mjög vinsæll og varð í raun mjög mikill áhrifavaldur í lífi hennar. Fyrir þann tíma hafði hún sérhæft sig í að lita og plokka augabrúnir á konum. 

„Ég er búin að vera með opið Snapchat í tæpt ár og mér fannst kominn tími til að stækka við mig og bjóða upp á efni sem lifir lengur en sólarhring. Það er viss sjarmi yfir því á snappinu en einnig galli að öll vinna sem maður gerir þar inni er farin eftir sólarhring,“ segir Thelma. 

Með vefnum vildi Thelma koma allri sinni vinnu undir sama hatt. 

„Samhliða því að vera að skrifa færslur á síðunni verða einnig bókanir í augabrúnir en ég sérhæfi mig í því fagi og hef gert í yfir fimm ár. Fyrir sumarið fór ég af stað með augabrúnanámskeið í samstarfi við Nola verslun og Anastasia Beverly Hills, hugmyndin er að halda því áfram í vetur og fara ennþá víðar og er þá hægt að nálgast allar upplýsingar um það á síðunni. Síðast en ekki síst þá er það gulrótin að þessu öllu saman, en frá því að ég byrjaði að sérhæfa mig í augabrúnum og vera sýnilegri á samfélagsmiðlum var markmiðið að koma með mínar eigin augabrúna-vörulínu og er það að komast almennilega af stað núna. Vefurinn er gerður að stórum hluta til þess að geta boðið upp á mínar vörur á Guðmundsen.is. Ég tel mig búna að sanka að mér hverju konur sækjast eftir þegar kemur að augabrúnavörum eftir meira en fimm ára reynslu í þeim bransa,“ segir hún. 

Þessi mynd var tekin í útgáfuteitinu á dögunum.
Þessi mynd var tekin í útgáfuteitinu á dögunum. Ljósmynd/Vaka Njáls

Þegar Thelma er spurð hvernig vefur Guðmundsen.is sé nákvæmlega segir hún að vefurinn sé persónulegur og létt efni fái að njóta sín á honum. 

„Ég hef alltaf verið persónuleg á snappinu og öðrum miðlum og langar að halda því áfram á vefnum. Þar verða þá færslur sem fólk getur tengt persónulega við í bland við aðrar færslur. Þar sem ég er snyrti- og förðunarfræðingur verður einnig margt efni tengt því. Ætli við getum ekki kallað þetta lífsstílsblogg með smá tvisti.“

Fyrir hverja ertu að skrifa?

„Ég er aðallega að skrifa fyrir sjálfa mig og þá sem hafa fylgt mér á snappinu. Ég fæ mikið af skemmtilegum fyrirspurnum og ábendingum í gegnum Snapchat sem er ekki hægt að útfæra jafn skemmtilega á þeim miðli. Það verða eflaust einhverjar færslur í samstarfi við þau fyrirtæki sem ég vinn með en ég er þó með fá en góð fyrirtæki þegar það kemur að þeim málum.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að skrifa um?

„Ég hef rosalega gaman af því að skrifa um alls kyns mannleg málefni og ýmsar pælingar í kringum það. Ætli þar komi ekki inn þessar persónulegu færslur sem ég ætla að koma að á vefnum. Annars eru snyrti- og förðunarvörur mikið áhugaefni, mér finnst virkilega gaman að prófa vörur, huga að innihaldsefnum og skrifa um vörur sem mér líkar,“ segir hún. 

Thelma er jákvæð og drífandi. En hvað drífur hana áfram?  

„Hvetjandi verkefni, jafnvel eitthvað sem ég hef ekki gert áður, og þegar fólk segir mér að ég geti ekki gert eitthvað ögrar það mér til að leggja enn harðar að mér. Í kjölfarið læri ég alltaf eitthvað nýtt og get skilað verkefnum frá mér sátt,“ segir hún. 

Hvað gerirðu til að ná markmiðum þínum?

„Ég hugsa um hvað er best fyrir mig og fókusera á mig, ekki aðra. Maður nær ekki sínum markmiðum ef maður er alltaf upptekinn af markmiðum annarra. Mér finnst líka mjög gott að ræða markmið mín við nána vini, þá er ég búin að koma þeim lengra og þá verða hlutirnir meira en bara hugsun hjá mér. Það myndast þá ósjálfrátt smá pressa og ekki jafn auðvelt að bakka út úr hlutunum.“

Hvað gerir þig hamingjusama?

„Það gerir mig hamingjusama að vera með góða heilsu og njóta litlu hlutanna. Litlu hlutirnir eru orðinr mun mikilvægari fyrir mér en áður. Að fá mér brunch með kærastanum, hitta góða vini og borða góðan mat er nóg og mikilvægt fyrir mann að kunna meta.“

Ef þú vilt fylgjast með Thelmu á Snapchat þá er hægt að finna hana undir nafninu  thelmagudmunds.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál