Tóku út loðfeldi og tónuðu litina niður

Hulda Karlotta Kristjánsdóttir.
Hulda Karlotta Kristjánsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hulda Karlotta Kristjánsdóttir, hönnuður og gæðastjóri hjá ZO•ON, hóf störf hjá fyrirtækinu 2014 en hún útskrifaðist sem fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands. Hún hóf feril sinn hjá Lazytown við gerð búninga og svo færði hún sig yfir til Nikita þar sem hún starfaði í níu ár. Hjá Nikita var hún meira að vinna í götutískunni en tók líka þátt í hönnun á brettafatnaði fyrirtækisins. 

„Í dag hef ég þróast mikið sem hönnuður hvað varðar tæknilegu hliðina og allt sem kemur að framleiðslu á flíkum. Hvert verkefni sem ég hef tekið að mér síðustu ár hefur verið frábær viðbót við þekkingu mína sem hönnuður,“ segir hún.

Merkið ZO•ON hefur líka þróast mikið síðustu ár og á Hulda Karlotta stóran þátt í því. 

„Þegar ég kom til ZO•ON var stefnan mun víðari. Við vorum að hanna skíðalínu, golflínu og „outdoor-línu“. Í dag höfum við þrengt rammann töluvert og fókusinn er á fjölnota flíkur sem við getum notað við mismunandi tækifæri, jafnt útivist og daglega notkun. Mikil áhersla er á vönduð tæknileg efni og mikið lagt í smáatriðin,“ segir Hulda Karlotta. 

Hönnuðurinn Hulda Karlotta sækir innblástur í allt umhverfi sitt, hvort sem það er í götutískuna, í náttúruna eða í útlandaferðir sínar en vegna vinnunnar þarf hún að ferðast töluvert. Hún segir að hugmyndir fæðist við ólíklegustu tækifæri. En hvernig er starfi hönnuðar og gæðastjóra hjá íslensku útivistarfyrirtæki háttað? 

„Starfið snýst um allt frá hugmyndavinnu, skyssum og að gera tæknipakka fyrir framleiðendur yfir í það að koma vörunni í verslanir. Við erum tvö í hönnunarteyminu, ég og Marrti Kellokumpu, sem er frá Finnlandi. Hann var fyrsti hönnuður ZO•ON en gerðist yfirhönnuður finnska útivistarmerkisins Halti árið 2001. Nú er Kellokumpu kominn aftur á heimaslóðir. Það sem gerir okkur að góðu teymi er að hann er frábær tæknilegur hönnuður hvað varðar efni og smáatriði og ég hef næmt auga fyrir tískustraumum og stefnum.“

Nú er fólk farið að nota útivistarföt dagsdaglega og blanda þeim saman við venjulegan fatnað. Breytir það ykkar stefnu?

„Svo sannarlega hefur það haft áhrif á okkar stefnu og hönnun. Við hugsum línuna okkar þannig að þú getir notað flíkurnar jafnt á götum í borgarinnar og í útvist í náttúrunni. Við Íslendingar erum vön því að vera undirbúin fyrir allra veðra von þannig að við höfum lagt áherslu á 2in1 og 3in1 jakka í nýju línunum okkar. Einnig erum við mikið fyrir að sýna flíkurnar okkar í nokkrum lögum, þ.e.a.s léttari jakkar undir eins og primaloft-jakkar eða léttir dúnjakkar undir skeljar eða léttari úlpur. Fólk vill líka í dag geta notað flíkurnar sínar vel og við mismundandi tækifæri. Þá koma 2in1 og 3in1 jakkarnir sterkir inn, að geta breytt úlpunni þinni í regnkápu eða notað innri jakkann fyrir léttara veður. Frábærir ferðajakkar þar sem þú þarft jafnvel að vera með úlpu, regnkápu og smart léttan jakka með í ferð. Allt í einni flík,“ segir hún. 

Þegar Hulda Karlotta er spurð að því hvað einkenni góð útivistarföt segir hún að þau séu vel hönnuð og úr góðum efnum. 

„Hönnunin verður að taka mið af þægindum og efnin verða að hafa rétta virkni, þ.e.a.s öndun, vatnsheldni og teygjanleika.“

Hvað hefur þú í huga þegar þú ert að hanna?

„Bland af útliti og virkni, eða funksjón sem er alltaf lykilatriðið. Hef líka í huga að hönnunin þarf að ná til víðs aldurhóps. Ég fylgist líka vel með hvað markaðurinn vill. Það er líka nauðsynlegt að koma með eitthvað óvænt, sem getur verið frá heilli flík eða niður í óvænt smáatriði.“ 

Í vetrarlínunni má sjá töluvert nýja sýn, getur þú lýst því?

„Vetrarlínan sem er nú í verslunum okkar sýnir glögglega afrakstur síðustu 2 ára hjá okkar teymi. Í línunni er að finna okkar klassísku parka-úlpur í ólíkum útgáfum. Létteinangraðar úlpur, eins og Jaki, Þrauka og nýja úlpan okkar Patti, upp í þykkar dúnúlpur, Berjast og Orri. Orri er ný í línunni okkar og er unisex parka-úlpa sem er nú í nýrri sídd og með liprari dúnfyllingu. Þessi er algjörlega búin að slá í gegn síðan hún kom í verslanir.

Primaloft-flíkurnar hafa tekið á sig nýja mynd í hybrid-jökkunum Dalsfell og Búrfell, þar sem við blöndum saman prjónaflísefni og primaloft-fylltu nælonefni. Þetta eru frábærar flíkur fyrir öll tækifæri. Það er gaman að segja frá því líka að við erum algjörlega búin að taka út ekta loðfeld á úlpunum okkar og setja inn gæða gerviloðfeld. Við höfum fengið gríðarlega góð viðbrögð hjá viðskiptavinum okkar.

Ástæðan fyrir því að við skiptum út ekta loðfeld í gervi loðfeld, var að við vildum síður nota dýrafeldi og við fundum mjög greinilega frá markaðinum að fólk vildi síður ekta loðfeld út frá dýraverndunar sjónarmiði. Önnur ástæða var að gæða gervi loðfeldur hefur mun lengri líftíma en ekta loðfeldur, hann missir ekki hárin. Ekta loðfeldur fer ekki vel í mikilli bleytu og á það til að missa hárin, þetta er jú dautt skinn, Gervi loðfeldur heldur sér vel í hvaða veðri sem er. Við höfum líka tónað litapallettuna niður og erum mikið að nota jarðliti sem við finnum í íslenskri náttúru,“ segir hún. 

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Minn stíll er nokkuð einfaldur með smá tvisti. Mér finnst gaman að blanda saman ólíkum stílum og fer það yfirleitt eftir veðri og skapi hvers dags. Ég er farin að einfalda stílinn minn og fatkaupin mín. Ég vel vandaðri flíkur sem endast lengur og passa auðveldlega við flest í skápnum mínum.“

Hvað vantar í fataskápinn þinn?

„Það mætti alltaf bæta við fleiri vönduðum og tímalausum flíkum í skápinn. Ef það ætti að vera eitthvað visst þá væri það helst falleg prjónuð peysa.“

Hvað finnst þér einkenna vel klætt fólk?

„Ólíkir stílar settir saman sem mynda gott jafnvægi. Flíkur sem hafa sögu eða sál sett saman með einhverju nýju. Mér finnst þetta ekki snúast um flottustu merkin eða dýrasta stöffið. Þetta snýst um að kunna setja saman og skapa sinn stíl sem þér líður vel í.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál