Hvað einkennir fatnað sem klæðir mig?

Erica Hoida er vinsæll stílisti sem gaman er að fylgjast …
Erica Hoida er vinsæll stílisti sem gaman er að fylgjast með til að skoða samsetningar og ólík snið. Ljósmynd/skjáskot Instagram

Margar konur hafa í svo miklu að snúast að þegar kemur að því að velja á sig fatnað standa þær andspænis verkefninu með ótta og vantraust í huga. Á meðan aðrar konur vita fátt skemmtilegra en að velja á sig fatnað og bæta einni nýrri flík inn í fataskápinn við hvert tækifæri. 

Það sem greinir að þessar konur er magn af ást sem þær hafa sett inn í það að klæða sig. Þetta hefur minna með smekk og tískuvitund að gera. Þar sem þær konur sem hafa ekki gefið sér tíma í verkefnið, geta verið með einstakan smekk án þess að vita af því.

Eftirfarandi atriði er gott að hafa í huga þegar fólk fer af stað í það verkefni að finna sinn eigin stíl í gegnum fatnað.

Settu saman hugmyndaborð

Flestar konur kunna að gera áætlanir með ýmsa hluti í lífinu. En einungis örfáar hafa farið í það að búa til hugmyndaborð um sinn eigin stíl.

Þegar þú gerir hugmyndaborð er gott að skoða bækur, listaverk, taka myndir út í náttúru og fleira í þeim dúrnum.

Smáatriði eru alltaf aðalatriðið þegar kemur að tísku. Ef þú hugar að þeim getur þú uppfært svarta klassíska jakkann með öruvísi tölum og þar fram eftir götunum. 

þegar þú skoðar gamlar myndir af stjörnum sem klæddu sig upp á muntu sjá að þær voru með einn stíl í gegnum ævina. Þær skiptu ekki um stíl eftir tísku, heldur komu þær ákveðnum straumum áfram sem seinna varð að tískubylgju.

Pinterest og Instagram er einnig fullt af áhugaverðum samsetningum af fallegum fatnaði. Gamlar kvikmyndir einnig.

Fyrir þær sem eru mikið í öllu svörtu getur verið …
Fyrir þær sem eru mikið í öllu svörtu getur verið gaman að huga að vel að smáatriðunum. Skartgripirnir á þessari mynd sem og hárið setja punktinn yfir i-ið. Ljósmynd/skjáskot Instagram

Þú veist hvað klæðir þig best

Þegar við klæðum okkur upp á þá er nauðsynlegt að vita sitt hvað um líkama okkar. Vonandi hefur þú unnið þannig í þér að þú ert ánægð með það hvernig þú lítur út. En eins og við vitum þá eru ákveðin svæði á líkamanum sem við viljum sýna betur en önnur.

Margar konur eru með ákaflega fallega kálfa. Þær eru þá með langt svæðið upp að hnjám og velja að ganga í pilsum sem sýna leggina vel. Aðrar eru með grannt mitti og enn aðrar eru með undurfagra upphandleggi.

Ef þú ert dugleg að taka þér einn dag reglulega og bara byrja að máta fatnað þá kemstu fljótt að því hvað þig klæðir best. Ekki láta skoðanir annarra segja þér of mikið í þessum efnum. Innra með þér býr ákveðin þekking eða smekkur sem þú getur fengið fram með því að vera ein og íhuga þegar kemur að mátun.

Ef þú þekkir til kvenna með svipað vaxtarlag og þú ert með og þér finnst þær klæða sig fallega, skoðaðu sniðin sem þær eru að velja sér vel. Sem dæmi eru bundnir kjólar frábærir fyrir mittismjóar en barmstórar konur. Stuttir kjólar í MOD-sniði eru fallegir fyrir konur sem vilja sýna leggi en ekki mitti. Þær konur sem eru duglegar að velja sér jakka, vita að það hvernig þeir passa yfir axlirnar skiptir öllu máli. Hér dugar ekkert minna en að prófa og prófa síðan aðeins meira. Það kemur þér á óvart hversu mikill sérfræðingur þú verður með því að taka bara einn dag í einu í þessum efnum og nota innsæið. Fjöldi fagmanna er einnig í verslunum boðnir og búnir til að aðstoða okkur eftir þörfum.

Góðir stílistar eru gulls ígildi. Þeir geta bent þér á og fundið flíkur sem þér líkar sniðið af á mörgum stöðum. Eins getur komið á óvart þegar þú prófar fatnað sem þér hefði aldrei dottið sjálfri í hug að máta fyrir þig. En mundu, þú þarft að ganga í fötunum, þess vegna þarft þú að hafa úrslitavaldið í þessum efnum.

Það er ótrúlega fallegt að ganga í svörtum buxum og …
Það er ótrúlega fallegt að ganga í svörtum buxum og ljósum fatnaði að ofan. Svartar tölurnar á kápunni tengja andstæða liti vel. Ljósmynd/skjáskot Instagram

Litir sem lýsa þér

Þegar kemur að litavali erum við margar fastar í sömu litunum. Stundum förum við reyndar í aðeins ljósari liti þegar við eldumst en það er alltaf gaman að nota þá liti sem koma sterkir inn við hvert tímabil og máta hvort um er að ræða lit sem gæti gengið vel fyrir þig. 

Ekki kaupa lit bara af því hann er í tísku. Kauptu litinn sem lýsir þér best. Eins er alltaf gaman að eiga fallegar samsetningar inn í skápnum, sem hægt er að draga fram við ákveðin tækifæri, blanda saman og breyta að vild. 

Allar konur þurfa ákveðnar grunnflíkur inn í fataskápinn. Ljósa boli, bláar gallabuxur, svarta kjóla og ljósa skó. Andaðu inn í verkefnið og skoðaðu hvaða liti þú velur fyrir heimilið þitt og þar fram eftir götunum. Við gætum leikið okkur svo mikið meira þegar kemur að litum. Enda endurspeglar ljós og litríkur fatnaður styrkleika hjá þeim sem klæðist litunum.

Ef þú ert mikið fyrir að vera í svörtu er það bara ákaflega fallegt. En skoðaðu þá ljósa skó eða skó í mynstri við hefðbundna svarta litinn. Eins getur verið fallegt að vera með einn ljósan klút eða ljósa yfirhöfn yfir dökka grunnfatnaðinn.

Þær sem eru miikið fyrir svart, velja sér oft svarta …
Þær sem eru miikið fyrir svart, velja sér oft svarta kjóla með smávegis ljósum tónum. Þessi bleiki litur er dýrðlegur. Samspil tösku og kjólsins er fallegt. Ljósmynd/skáskot Instagram
Það er gaman að prófa nýja liti þegar þeir koma …
Það er gaman að prófa nýja liti þegar þeir koma í tísku. Óþarfi er að fylgja öllum tískusveiflum en þegar litir eru áberandi þá er meira tilefni að bera þá við húðlitinn. Þannig lærist yfir árin hvað fer manni best. Ljósmynd/ skjáskot Instagram

Taktu til í fataskápnum

Eitt af því sem flestar konur flaska á er að kaupa sér mikið af því sama. Ef við tökum til þann fatnað sem við notum 80% af tímanum eru góðar líkur á að það sé einvörðungu 20% af því sem þú hefur keypt þér. Taktu restina sem þú notar lítið sem ekkert og skoðaðu hvort þú getur ekki komið því í verð. Fatnaður er ákaflega flókinn í bígerð og það er fallegt verkefni að koma flíkunum okkar á réttu staðina þar sem þær komast í notkun. 

Ef þú ert mikið í eins fatnaði, er ekkert að því að eiga nokkra hluti í þannig stíl svo hann nýtist betur. En ekki bara kaupa til að kaupa og vertu dugleg að fara á markaði sem selja tímabilsflíkur. Þannig getur þú uppfært hefðbundinn stíl með smá „twisti“ og sett þitt eigið merki á allt sem þú klæðist. 

Það þarf ekki að kosta mikið að líta vel út og glæsileiki í útliti og fatnaði helst í hendur við glæsileika á öllum sviðum í lífinu. Það að kona sinni sér vel og lítur vel út gefur merki um að hún beri virðingu fyrir sér. Það er ekki hégómi heldur fegurð sem varpað er inn í samfélagið. Ef þú gefur þér leyfi til að líta vel út, gefur þú öðrum í kringum þig leyfi til að gera hið sama. Margir sakna þess tíma þegar fólk lagði virkilega mikið á sig þegar það klæddi sig upp á í leikhús og tónleika.

Hins vegar ef vel er að gáð eru fjölmargir í landinu sem kunna að klæða sig upp á við hátíðleg tækifæri. Það er verðugt verkefni að vera einn af þeim sem eru til fyrirmyndar í klæðnaði.

Myndirnir með greininni er að finna á Instagram-reikningi Erica Hoidan. Hoidan starfar sem stílisti og gefur greinargóðar upplýsingar um hvar allur fatnaður fæst sem hún sýnir. Stílistar eins og hún geta vísað okkur veginn. En okkar stíll býr innra með okkur.

Fallegir hvítir bolir eru klassískir og er alltaf not fyrir …
Fallegir hvítir bolir eru klassískir og er alltaf not fyrir slíkt. Fallegt hálsmen gerir mikið fyrir einfalt útlitið. Ljósmynd/skjáskot Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál