Hvers vegna er skegg svona vinsælt núna?

Ögrar staðalmyndunum: „Flest­ir halda að ég sé vöru­bíl­stjóri eða eigi …
Ögrar staðalmyndunum: „Flest­ir halda að ég sé vöru­bíl­stjóri eða eigi mótor­hjól þó ég viti ekk­ert um slíka gripi en þetta er samt að breyt­ast aðeins núna því skegg eru kom­in í tísku.“ Eggert Jóhannesson

Árni Eiríkur Bergsteinsson hárgreiðslumaður og eigandi Hárbeitt í Hafnarfirði veit allt sem hægt er að vita um skegg. Hann fær daglega menn til sín í skeggsnyrtingu en sjálfur byrjaði hann að safna fyrir níu árum. 

„Ég er sjálfur búinn að vera með skegg síðan 2006 en þá byrjaði ég í Rimmugýgi sem er sérlegt áhugamannafélag um víkingatímabilið. Þetta byrjaði semsagt sem hobbýtengt sport hjá mér en svo varð þetta bara partur af lúkkinu,“ segir Árni og bætir við að hann hafi prófað nánast allt undir sólinni þegar kemur að hári og skeggi. 

„Alla háraliti, yfirvaraskegg í öllum gerðum, allar klippingar. Jú einmitt,“ segir hann og hlær en eins og fyrr segir hefur hann verið bæði með sítt hár og skegg síðustu níu árin. 

Sprangandi um með alskegg eins og gamall karl

Nú flokkast svona víkingur eins og þú eflaust ekki undir þá staðalmynd sem flestir hafa í kollinum af karlkyns hársnyrti? Verður fólk ekkert ringlað? 

„Jú, jú. Það hefur sannarlega verið þannig lengi,“ segir hann og bætir við að það hafi alveg verið kominn tími á þessa tísku þó fæsta hefði grunað að vinsældirnar yrðu slíkar sem raun ber vitni. 

„Þetta er á vissan hátt sprenghlægilegt. Það eru sko ekki mörg ár síðan manni datt ekki hug að maður myndi dag einn spranga um með sítt alskegg eins og gamall karl! Hér var varla nokkur maður með skegg svo áratugum skipti!“

Metrómaðurinn er dauður - Hér kemur skógarhönkið!

Spurður að því af hverju skegg séu komin í tísku heldur Árni að það sé í takt við aðra strauma í samfélaginu. 

„Það má segja að allt sem er svona svolítið gamaldags sé sérlega vinsælt núna. Skeggin eru samt frekar sérstök tíska því þau hafa ekki verið svona vinsæl síðan bara um aldamótin 1900! Menn eru meira að segja farnir að ganga í jakkafötum aftur svona hversdags. Það þykir í raun smartast að vera í tweed-jakkafötum með herraklippingu og alskegg,“ segir Árni. „Nú er metrosexual eða metrómaðurinn dauður og í staðinn höfum við fengið 'lumbersexual' manninn, nú eða skógarhönkið eins hann heitir á íslensku,“ segir Árni og skellir upp úr. 

„Þetta er svona spjátrungstíska. Maður sér líka að ungir menn …
„Þetta er svona spjátrungstíska. Maður sér líka að ungir menn sem eru komnir með gott skegg fara að keppa við vini sína um hver er með síðasta, mesta og flottasta skeggið.“ Eggert Jóhannesson


Asnalegur án skeggsins

„Þetta er svona spjátrungstíska. Maður sér líka að ungir menn sem eru komnir með gott skegg fara að keppa við vini sína um hver er með síðasta, mesta og flottasta skeggið.“

Sjálfur segist hann vera orðin mjög háður skegginu sínu og finnist eitthvað mikið vanta í líf sitt þegar hann rakar það af. 

„Það er þannig með blessað skeggið að ef maður fer að safna þessu þá fer manni að þykja vænt um það og það verður alltaf erfiðara að raka sig. Manni finnst maður asnalegur án þess, það poppar upp einhver skrítin undirhaka og svona,“ segir hann og hlær. 

Hægt að móta andlitið með skegginu

Á  Hárbeitt vinna fjórir karlar sem allir eru vel skeggjaðir. Árni segir að síðustu tvö árin hafi það færst gríðarlega í aukana að menn komi til hans í skeggsnyrtingu en áður fyrr var það bara einn fastakúnni sem mætti mánaðarlega og lét snyrta skeggið. 

„Þetta er að minnsta kosti einn á dag núna. Menn eru farnir að hringja og panta bara tíma í skeggsnyrtingu en ekki klippingu í leiðinni. Ætli það séu ekki svona tvö ár síðan það byrjaði,“ segir Árni en skeggsnyrting kostar á bilinu tvö til fjögurþúsund á stofunni. 

Árni segir að hvaða maður sem er geti verið með skegg, það ætti alltaf að vera hægt að finna stíl sem hentar hverjum og einum. 

„Sumir eru með ræfilsleg skegg en það má alltaf laga það þannig að það passi viðkomandi. Það má vera hökutoppur og flott yfirvaraskegg. Það geta ekki allir verið með alskegg,“ segir Árni en skeggvöxtinn má líka nota til að skerpa á andlitsdráttum og fela það sem þykir síður fallegt við útlitið. 

„Ef maður tekur línurnar vitlaust þá getur maður búið til undirhöku og bollukinnar sem fæstir eru kannski að sækjast eftir,“ segir hann og hlær.

Að lokum fáum við Árna til að gefa skeggmönnum nokkur góð ráð:

Númer eitt, tvö og þrjú er auðvitað að þrífa það reglulega. Nota sjampó og jafnvel góða hárnæringu. Svo eru þessar skeggolíur algjör snilld. Þær hindra skeggflösu og gera skeggið mun ræktarlegra og fallegra. Það er óskaplega leiðinlegt þegar það snjóar úr skegginu,“ segir hann og bendir á að í raun geti verið alveg jafn ljótt að vera með illa hirt skegg og að vera illa klipptur.

„Þegar þú ert komin með svona mikið skegg þá er þetta eins og að vera búinn að bæta á sig öðrum kolli og hann ræktar sig ekki sjálfur. Það þarf að sinna skegginu.“

Fjórir hárbeittir! Guðjón Helgason, Kristófer Haraldsson, Ingólfur Grímsson og Árni …
Fjórir hárbeittir! Guðjón Helgason, Kristófer Haraldsson, Ingólfur Grímsson og Árni Eiríkur. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál