Þorgrímur Þráinsson stýrði liði Vals gegn Stjörnunni í kvöld, í fjarveru Willums Þórs Þórssonar sem er við þjálfaranám í Lundúnum. Valur tapaði 3:0, en Þorgrímur sagðist bera fulla ábyrgð á tapinu í kvöld.
„Við mættum mjög sterku, öguðu og hröðu liði í kvöld sem setti okkur út af laginu. Við vorum lengi að finna taktinn, Stjarnan hirti alla seinni bolta, við vorum seinir í tæklingar og já, hvað getur maður sagt? Það má deila um hvort mörk koma eftir snilligáfu sóknarmanna eða mistök varnarmanna, en í kvöld var það hvoru tveggja. Svona er þetta bara stundum,“ sagði Þorgrímur.
En skyldi hann fá skömm í hattinn frá Willum símleiðis í kvöld?
„Enginn þjálfari er sáttur við tap. Auðvitað hefði Willum viljað vera á hliðarlínunni í kvöld, en aðstæður höguðu því þannig að ég stjórnaði liðinu, og ég tek þetta tap algerlega á mig. Ég er með breitt bak.“