Dagmar tryggði Grindavík óvænt stig

Mateja Zver skoraði fyrir Þór/KA í Grindavík.
Mateja Zver skoraði fyrir Þór/KA í Grindavík. mbl.is/Þórir

Dagmar Þráinsdóttir skoraði tvívegis beint úr aukaspyrnum og tryggði Grindavík óvænt jafntefli, 2:2, gegn Þór/KA í síðasta leiknum í fyrstu umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsideildarinnar, í dag.

Leikurinn fór fram á Grindavíkurvelli og fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

6. mín: Þór/KA nær forystunni með marki úr vítaspyrnu. Bojana Besic skorar en engu munar að Rannveig J. Guðmundsdóttir markvörður nái að verja. Hún slær boltann í stöng og inn, og líklega aðstoðaði vindurinn við að boltinn fór í netið.

35. mín. Þór/KA kemst í 2:0 með fallegu skallamarki frá slóvensku landsliðskonunni Mateju Zver, eftir sendingu frá Rakel Hönnudóttur. Skömmu áður missti Grindavík markvörð sinn, Rannveigu J. Guðmundsdóttur, meidda af velli. Útispilarinn Ólöf Daðey Pétursdóttir tók stöðu hennar í markinu.

65. mín. Grindvíkingar hleypa spennu í leikinn með því að minnka muninn í 1:2. Dagmar Þráinsdóttir tekur aukaspyrnu rétt fyrir framan miðju, um 45 metra frá marki, og skorar beint úr henni! Það er talsvert um manninn á Grindavíkurvelli að fylgjast með þessari viðureign.

76. mín. Dagmar Þráinsdóttir er aftur á ferð og er nú búin að jafna metin fyrir Grindavík í 2:2. Hún tók aðra aukaspyrnu, öllu nær í þetta sinn eða um 25 metra frá marki, og skoraði með föstu skoti.

Þór/KA endaði í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar í fyrra sem er besti árangur liðsins. Grindavík kemur í staðinn fyrir lið GRV, sem hafnaði í 7. sætinu á síðasta tímabili en þá var það sameiginlegt lið Grindavíkur, Reynis og Víðis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert