Hannes Þór Halldórsson markvörður Fram var ósáttur við annað mark Fylkis í leik liðanna í Pepsí deildinni í kvöld þar sem hann vildi meina að á sér hafi verið brotið í aðdranda þess að Einar Pétursson skoraði.
Andrés Már Jóhannesson tók aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Fram og gaf háa sendingu inn á teiginn sem sigldi yfir Hannes en hann rauk út úr markinu. Boltinn skoppaði upp í þverslána og Einar skallaði í opið markið.
Hannes tók á rás á eftir Kristni Jakobssyni dómara og fékk fyrir vikið gula spjaldið. „Mér gafst ekki kostur á því að mótmæla því þegar ég kom til Kristins þá mætti hann mér með gula spjaldið á lofti áður en ég sagði eitt aukatekið orð. Hann gaf mér því gula spjaldið fyrir að hlaupa á eftir honum og ég ætlaði nú ekki að láta reka mig út af fyrir að segja eitthvað í kjölfarið. Ég var mjög ósáttur við þetta þetta mark. Ég er núna búinn að sjá sjónvarpsupptöku af þessu á litlum skjá og ég sé ekki betur en að ég hafi rétt fyrir mér. Það keyrðu þrír menn inn í mig og hindruðu leið mína að boltanum. Það er bara brot í svona tilfellum,“ sagði Hannes við mbl.is um atvikið en liðin skildu jöfn 2:2.