Tryggvi Guðmundsson, knattspyrnumaður úr ÍBV, sló rétt í þessu markametið í efstu deild karla þegar hann skoraði þriðja mark Eyjamanna gegn Stjörnunni, 3:1, í leik liðanna sem nú stendur yfir á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.
Tryggvi kom inní lið ÍBV í kvöld, í fyrsta skipti á tímabilinu, en hann missti af fyrstu fimm leikjunum eftir að hafa fengið blóðtappa fyrr á þessu ári. Hann skoraði markið á 76. mínútu, beint úr aukaspyrnu, en þetta var þriðja mark ÍBV á aðeins fimm mínútum eftir að liðið lenti undir, 0:1, um miðjan síðari hálfleik.
Þetta er 127. mark Tryggva í deildinni en Ingi Björn Albertsson átti fyrra metið og skoraði sitt 126. mark árið 1987.