Rodgers: Væri ruglaður ef ég lánaði Carroll

Carroll fer ekkert á láni.
Carroll fer ekkert á láni. Reuters

Andy Carroll, framherji Liverpool, verður ekki lánaður til annars félags og þá sérstaklega ekki Newcastle. Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að hann þyrfti að vera ruglaður til að íhuga að lána leikmanninn.

Newcastle, sem seldi Carroll til Liverpool fyrir 35 milljónir í janúar í fyrra, reyndi að fá framherjann á láni fyrr í mánuðinum en því var hafnað.

„Það er ekki möguleiki að Carroll verði lánaður og þá sérstaklega ekki til Newcastle. Newcastle fékk 35 milljónir punda fyrir hann í fyrra og að láta sér detta það í hug að reyna fá hann aftur á láni er ótrúlegt,“ segir Rodgers.

„Við erum með þunnskipaðan hóp eins og staðan er. Við höfum misst menn í sumar og ekki fyllt í öll skörðin. Það er staðreyndin sem við þurfum að búa við.“

„Ég þyrfti að vera ruglaður til að íhuga að lána Carroll núna,“ segir Brendan Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert