Guðmundur Þórarinsson, Selfyssingurinn sem spilar með norska úrvalsdeildarliðinu Sarpsborg, hefur verið valinn í íslenska landsliðið fyrir vináttulandsleikinn gegn Svíum sem fer fram í Abu Dhabi 21. janúar.
Frá þessu er skýrt á vef Sarpsborg en þar er sagt að „Gudi“ hafi verið valinn í íslenska hópinn fyrir leikinn, en íslenska liðið fari til Abu Dhabi 18. janúar. Hann sé væntanlegur aftur til Noregs daginn eftir leik.
Guðmundur var í stóru hlutverki á fyrsta tímabili sínu með Sarpsborg, á síðasta ári, þegar liðið náði að halda sér í úrvalsdeildinni. Þá var hann í lykilhlutverki í íslenska 21-árs landsliðinu.