KSÍ fær viðurkenningu vegna Special Olympics

Guðlaugur Gunnarsson, til vinstri, tekur við viðurkenningunni fyrir hönd KSÍ.
Guðlaugur Gunnarsson, til vinstri, tekur við viðurkenningunni fyrir hönd KSÍ.

Knattspyrnusamband Íslands hlaut á dögunum viðurkenningu frá Evrópusamtökum Special Olympics fyrir farsælt samstarf við Special Olympics á Íslandi en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íþróttasambandi fatlaðra.

Það var Guðlaugur Gunnarsson, starfsmaður KSÍ, sem veitti viðurkenningunni móttöku á ráðstefnu Special Olympics í Varsjá í Póllandi.  Hann er íþróttagreinastjóri Special Olympics í knattspyrnu og hefur verið fulltrúi Íslands á fundum og ráðstefnum erlendis um knattspyrnumál Special Olympics.

 Formlegur samstarfssamningur á milli KSÍ og Special Olympics á Íslandi var undirritaður 13. janúar 2014 og var Ísland er eitt af fyrstu aðildarlöndum SOI sem staðfesta slíkt samstarf formlega.  KSÍ mun hvetja knattspyrnufélög um land allt til samstarfs á þessu sviði og kynna samstarfið í í tengslum við þjálfaranámskeið barna og unglinga.

Fyrstu knattspyrnusambönd til að hljóta viðurkenningu Special Olympics í Evrópu fyrir samstarf við Special Olympics í heimalandinu voru í Danmörku, Ítalíu og Tyrklandi fyrir árin 2011 – 2012 og nú Ísland, Írland og Hvíta-Rússland fyrir árin 2012 - 2013.   Samstarfið á Íslandi hefur tengst Evrópuviku UEFA og Special Olympics, Íslandsleikum Special Olympics, sparkvallaverkefni þar sem opnar æfingar voru settar upp fyrir fatlaða og nú síðast samstarfi vegna Unified football / blönduð lið fatlaðra og ófatlaðra.

Í tilkynningunni segir að þetta sé mikil viðurkenning fyrir margra ára farsælt samstarf KSÍ og Special Olympics á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert