Ágúst: Hrikalega vont

Ágúst Þór Gylfason þjálfari Fjölnis var að vonum afar svekktur eftir tap Fjölnismanna fyrir Víkingum í kvöld í Pepsi-deild karla en sigurmark Víkinga kom ekki fyrr en á 89. mínútu leiksins en þeir höfðu fengið fá tækifæri fram að því.

„Já, þetta er hrikalega svekkjandi. Við vorum búnir að berjast og vorum betra liðið allan leikinn fannst mér. Fyrri hálfleikur var mjög rólegur og við sköpuðum okkur eina tækifærið í leiknum... Að fá þetta á sig í lokin er náttúrlega hrikalega vont og þetta var bara algjört einbeitingarleysi hjá okkur að vera ekki búnir að koma boltanum í burtu,“ sagði Ágúst Þór Gylfason.

„Mér fannst spilamennskan góð en það er erfitt að vera ánægður með það þegar þú tapar 1:0 á 90. mínútu. Leikurinn er 90 mínútur plús uppbótartími. Þeir kláruðu þetta með stæl. Það er skemmtilegast að vinna svona og náttúrlega ömurlegt að tapa svona,“ sagði Ágúst.

Ágúst telur ekki að það vanti upp á knattspyrnuna sem Fjölnisliðið spilar til þess að vinna leiki, vandamálið er að hans mati andlegi þátturinn.

„Ég vil ekki tengja þetta fótboltalega séð, þetta er meira sálfræðilegt. Þetta er einbeitingarleysi, þeir fá þetta mark þarna í lokin, menn eru í ágætis formi og við vorum að spila ágætlega úti á velli,“ sagði Ágúst en nánar er rætt við hann í ofanverðu myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert