Deila: KR-ingar betri í Edinborg

Emil Atlason í skallaeinvígi gegn Celtic á KR-vellinum.
Emil Atlason í skallaeinvígi gegn Celtic á KR-vellinum. mbl.is/Eggert

Ronny Deila, knattspyrnustjóri skosku meistaranna Celtic, kveðst eiga von á því að KR-ingar verði erfiðari viðureignar í Edinborg í kvöld en í fyrri leik liðanna á KR-vellinum í síðustu viku þar sem Celtic knúði fram 1:0 sigur á lokamínútunum.

„Ég tel að KR muni sýna betri leik hérna en á heimavelli sínum, en þetta snýst þó fyrst og fremst um okkur sjálfa. Ef við höldum boltanum vel verða þeir að verjast. Sama er með þá; ef þeir ná að halda  boltanum vel þurfum við að verjast, en við vonumst til þess að leikurinn fari meira fram á þeirra vallarhelmingi. Þeir þurfa að skora mörk og verða að sækja meira í þetta sinn, þannig að það verður að vera gott jafnvægi í okkar liði,“ sagði Deila á vef Celtic.

Leikurinn fer fram á Murrayfield, heimavelli skoska rugbysambandsins í Edinborg, en Celtic Park er upptekinn vegna Samveldisleikanna í Glasgow.

„Völlurinn er frábær svo það verður ekkert vandamál að spila í Edinborg. Við lékum á litlum velli á Íslandi og þar fengum við lítinn stuðning, en nú fá okkar menn geysilegan stuðning, völlurinn er fullkominn svo við getum ekki afsakað okkur á neinu,“ sagði Ronny Deila.

Leikur liðanna hefst klukkan 18.45. Fylgst verður með gangi mála hér á mbl.is og KR-útvarpið verður með beina lýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert