Hlynur: Fullsnemmt að afskrifa okkur núna

Hlynur Svan Eiríksson, þjálfari Breiðabliks, var svekktur eftir tap síns liðs gegn toppliði Stjörnunnar, 1:0, í Garðabæ en Blikar spiluðu þrátt fyrir tapið vel í leiknum. Eftir leikinn er Stjarnan í 1. sæti með 27 stig en Blikar eru eftir tapið í kvöld í 3. sæti með 19 stig, 8 stigum á eftir Stjörnunni.

„Við erum svekkt að fá ekki neitt út úr þessu. Við spiluðum góðan leik og áttum skilið eitthvað úr honum,“ sagði Hlynur.

„Við komum okkur oft í góðar stöður þar sem vantaði herslumuninn að eitthvað yrði úr. Allt annað var í fínu lagi. Stjarnan skorar markið sitt úr víti. Það er það eina sem þær búa til á móti okkur. Leikmaður eins og Harpa, sem er alveg frábær, var hún með í leiknum?“ spurði Hlynur og svarað: „Eitthvað voða lítið.“

Blikarnir eru hins vegar heldur betur ekki úr leik í deildinni að mati Hlyns.

„Nei, mótið er rétt hálfnað. Þetta er fyrsti leikur í seinni umferð. Það er aðeins of snemmt að dæma okkur úr leik en þetta verður erfitt,“ sagði Hlynur.

Stjarnan og Breiðablik mætast strax aftur á föstudag í undanúrslitum bikarsins og þar munu Blikar mæta vel stemmdir til leiks.

„Við segjum að þetta hafi verið fyrri hálfleikur. Svo er seinni hálfleikur á föstudaginn. Þessi úrslit ættu að hvetja liðið fyrir föstudagsleikinn. Við vorum í góðu spjalli inni í klefa áðan. Hafi stelpurnar verið grimmar í dag þá verða þær heldur betur grimmari á föstudaginn,“ sagði Hlynur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert