Ólafur: Þetta lítur vel út

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum afar sáttur með sigur síns liðs gegn Breiðabliki í toppslag Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu en leikar enduðu 1:0 í hörkuleik.

„Mjög sáttur. Þetta var erfið fæðing að vísu en það endaði vel og við erum mjög sátt með að hafa tekið þrjú stig hérna.

Ég er fyrst og fremst ánægður að við héldum út leikinn. Við fengum ekki á okkur mikið af færum og kláruðum leikinn en við höfum oft spilað betur. Það er alveg klárt,“
sagði Ólafur sem telur að Stjarnan hafi ekki haldið boltanum nægilega vel innan liðsins í leiknum.

„Við héldum boltanum ekki nógu mikið í seinni hálfleik. Ég veit ekki hvort það var stress en við hefðum þurft að halda boltanum betur og klára leikinn þannig,“ sagði Ólafur en með sigrinum í dag hefur Stjarnan sjö stiga forskot á Fylki í 2. sætinu.

„Þetta lítur vel út, en það er heilmikið eftir af þessari deild og við getum ekkert slakað á með það, það er nóg eftir. Þó að það séu sjö stig þá þarf ekki mikið að klikka. Við þurfum að halda vel á spöðunum,“ sagði Ólafur en nánar var rætt við hann í ofanverðu myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert