Þórarinn Ingi kominn til ÍBV

Þórarinn Ingi Valdimarsson í leik með ÍBV.
Þórarinn Ingi Valdimarsson í leik með ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Knattspyrnumaðurinn Þórarinn Ingi Valdimarsson er genginn til liðs við Eyjamenn á nýjan leik eftir að hafa leikið í hálft annað ár sem lánsmaður með Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni. Hann er kominn með leikheimild með ÍBV frá og með morgundeginum.

Þórarinn tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hann hygðist snúa aftur til Eyja og hjálpa sínu gamla félagi til að halda velli í úrvalsdeildinni, en á þeim tímapunkti var liðið enn án sigurs og á botni deildarinnar. Það hefur nú breyst talsvert eftir þrjá sigurleiki í röð.

Þórarinn er 24 ára miðju- eða kantmaður og spilaði 78 leiki með ÍBV í úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 16 mörk áður en hann fór út. Hann lék 39 leiki með Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni og skoraði tvö mörk. Þórarinn á að baki einn A-landsleik fyrir Íslands hönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert