Atli: Þeir eru með fullt af veikleikum

Atli Jóhannsson, miðjumaður Stjörnunnar metur möguleika Stjörnunnar nokkuð góða fyrir leik liðsins gegn Motherwell í 2. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA en fyrri leikur liðanna fór 2:2 ytra þar sem Stjarnan náði að jafna metin á síðustu mínútu leiksins.

„Ég met þá bara mjög góða. Við erum kannski enn lítilmagninn í viðureigninni en við erum á heimavelli og náðum góðum úrslitum úti þannig að ég tel að þá bara mjög góða,“ sagði Atli Jóhannsson við mbl.is í kvöld.

Stjarnan gerði 2:2 jafntefli í Skotlandi og ætlar að sögn Atla að fara varlega inn í leikinn en þó er upplegg liðsins ekki að pakka í vörn.

„Þeir þurfa að sækja allavega eitt mark en við erum ekkert að fara að pakka í vörn og bjóða þeim á okkar helming heldur ætlum við að reyna að beita kannski skyndisóknum  á þá þegar tími gefst,“ sagði Atli

Það voru ekki margir sem spáðu því að Stjarnan gæti gert skoska liðinu grikk en liðið er atvinnumannalið og lenti í 2. sæti í skosku úrvaldsdeildinni á síðasta tímabili en Stjarnan sýndi þó að þeir hafa alls ekki mikið verra lið.

„Já þetta er mjög gott lið. Þeir sýndu okkur það líka á fyrstu 20 mínútunum að þeir eru alvöru karlar en þeir eru líka með fullt af veikleikum. Við vonumst til þess að hafa unnið heimavinnuna nokkuð vel og vonumst til þess að vinna þennnan leik jafnvel,“ sagði Atli.

Atli lýsir Motherwell sem beinskeyttu liði þar sem allar aðgerðir hafa tilgang.

„Þeir eru mjög beinskeyttir, það er allt sem hefur tilgang hjá þeim. Þeir segjast ekki vera í góðu formi en þeir voru alveg þokkalegir þarna um daginn. Það hefur allt tilgang hjá þeim, hlaup án bolta sem Íslendingar þekkja kannski ekki mikið,“ sagði Atli en nánar var rætt við Atla í ofanverðu myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert