Heimir: Liðið líkast Keflvíkingum

„Við munum kannski ekki sækja stíft í upphafi leiks. Við vitum að markalaust jafntefli fleytir okkur áfram. En við þurfum samt að passa okkur á því að spila bara ekki einhvern varnarleik og liggja í skotgröfunum. Við þurfum líka að geta haldið boltanum innan liðsins og sótt og reynt að skora mörk,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH í dag, en FH-ingar mæta hvít-rússneska liðinu Neman Grodno í síðari leik liðanna í 2. umferð Evrópudeildar UEFA á Kaplakrikavelli annað kvöld.

Fyrri leik liðanna lauk með 1:1-jafntefli í Hvíta-Rússlandi í síðustu viku. „Þeir eru góðir að halda boltanum innan liðsins og mjög góðir í skyndisóknum. Ef maður á að líkja liðinu við eitthvert íslenskt lið þá er það kannski Keflavík sem kemst næst því. Keflvíkingar eru mjög góðir í skyndisóknum og því eru líkindi. Þetta er gott lið,“ sagði Heimir um Neman Grodno.

„Leikmannahópurinn er kominn með ákveðna reynslu í Evrópukeppni og það hjálpar okkur líka. Auðvitað viljum við standa okkur sem best og komast sem lengst.“

FH-ingar hafa fengið rauð spjöld í þremur síðustu leikjum og spurningin er hvort það sitji einhver þreyta í FH-ingum enda leikið þétt. „Það verður tekið á þessu núna fljótlega. Við þurfum að fara að huga að því að halda mönnum inni á vellinum og vera 11 á móti 11 í næstu leikjum. Þetta gengur svona einstaka sinnum, en til lengri tíma litið held ég nú að þetta gangi ekki. Pétur [Viðarsson] og Kassim [Doumbia] mega báðir spila þennan Evrópuleik og það er nú ekkert vesen á þeim. Pétur spilaði nú ekkert á móti Breiðabliki og Kassim spilaði bara 38 mínútur, þannig þeir ættu báðir að vera klárir á morgun,“ sagði Heimir.

Viðtalið við Heimi Guðjónsson má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert