Ólafur: Mér leið fáránlega vel

Atli Jóhannsson (t.v.) og Ólafur Karl Finsen (t.h.) fagna í …
Atli Jóhannsson (t.v.) og Ólafur Karl Finsen (t.h.) fagna í kvöld. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Ólafur Karl Finsen, sóknarmaður Stjörnunnar var afar sáttur þegar blaðamaður mbl.is tók hann tali eftir framlengdan leik liðsins gegn Motherwell í 2. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA. Stjarnan fór áfram 5:4 samtals eftir en sigurmark Stjörnunnar kom í síðari hálfleik framlengingarinnar.

„Ég gæti ekki verið sáttari,“ sagði Ólafur sem skoraði sjálfur mark úr vítaspyrnu en það var þriðja markið í leikjunum tveimur gegn Motherwell sem Ólafur skorar úr vítaspyrnu og kappinn virðist ekki geta klúðrað.

„Nei ég er búinn að vera heitur á punktinum. Þetta var samt ekkert sérstakt víti en hann fór inn og það telur. Markvörðurinn var svona óþægilega nálægt því að verja boltann. Ég hefði viljað taka öruggari spyrnu en svo lengi sem við fáum mark þá skiptir engu máli hvernig það er,“ sagði Ólafur.

Fyrri leik Stjörnunnar gegn Motherwell í Skotlandi var fyrsti keppnisleikur skoska liðsins á undirbúningstímabili þeirra og Ólafi fannst hann finna fyrir því á leikformi þeirra í dag.

„Þetta reif í en maður fann að við vorum í betra formi en þeir. Við vorum þreyttir en maður fann að þeir voru þreyttari,“ sagði Ólafur.

Atli Jóhannsson skoraði sigurmark Stjörnunnar með draumaskoti af 25 metra færi eftir 114 mínútna leik. Tilfinningin hefði að sögn Ólafs ekki getað verið betri.

„Hún hefði ekki getað verið betri. Mér leið fáránlega vel,“ sagði Ólafur Karl Finsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert