Selfoss í úrslit eftir vítakeppni

Leikmenn Selfoss fagna marki í kvöld.
Leikmenn Selfoss fagna marki í kvöld. mbl.is/Kristinn

Selfoss er komið áfram í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í knattspyrnu í fyrsta sinn eftir sigur á Fylki eftir vítaspyrnukeppni í undanúrslitum á Fylkisvelli í kvöld, en lokatölur eftir framlengingu var 2:2.

Selfoss komst yfir strax á 8. mínútu þegar Blake Stockton skoraði af stuttu færi úr teignum eftir að Fylkiskonur náðu ekki að hreinsa frá. Selfyssingar  voru sterkari eftir þetta en það var hins vegar Cary Hawkins sem jafnaði metin fyrir Fylki á 38. mínútu með flottum skalla eftir hornspyrnu. Staðan 1:1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var ekki nema nokkurra mínútna gamall þegar Stockton skoraði sitt annað mark og kom Selfossi yfir á ný með skoti í þverslána og inn eftir hornspyrnu. Skömmu síðar skoraði Selfoss aftur en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Selfoss stjórnaði ferðinni en það var hins vegar Anna Björg Björnsdóttir sem jafnaði metin fyrir Fylki á 81. mínútu með stórglæsilegu skoti utan teigs. 2:2 eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að framlengja. Ekkert var skorað í henni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Þar var Alexa Gaul hetja Selfoss, en hún varði þrjú víti og skoraði úr einu. Frábær frammistaða hjá henni og Selfoss spilar til úrslita í fyrsta sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert