Guðbjörg á leið í aðgerð

Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Guðbjörg Gunnarsdóttir. mbl.is/Ómar

Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, er á leiðinni í aðgerð á hné og getur ekki byrjað að spila með hinu nýja liði sínu, Lilleström í Noregi, eftir sumarfríið eins og til stóð.

Guðbjörg hefur fundið fyrir meiðslunum í nokkurn tíma og fór í myndatöku í vikunni. „Mér var búið að vera illt lengi og sjúkraþjálfararnir hjá Potsdam og landsliðinu héldu að þetta væri aftan í lærinu. Ég hélt líka að ofþjálfun væri um að kenna en þegar ég fór að slappa af í sumarfríinu kom þetta í ljós," sagði Guðbjörg við mbl.is.

Hún hætti hjá Potsdam í Þýskalandi í sumar og samdi við Lilleström, sem er efst í norsku úrvalsdeildinni, og hefði átt að spila fyrsta leikinn 9. ágúst þegar deildin þar hefst á ný eftir fimm vikna sumarfrí.

Ísland mætir Danmörku í undankeppni heimsmeistaramótsins 21. ágúst og viðbúið er að Guðbjörg missi af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert