Hetjan Gaul skráði sögu Selfyssinga

Selfyssingar eru komnir í bikarúrslit kvenna í knattspyrnu í fyrsta …
Selfyssingar eru komnir í bikarúrslit kvenna í knattspyrnu í fyrsta sinn. mbl.is/Kristinn

Það er oft talað um að þjóðhetjur verði til þegar leikmenn gera eitthvað magnað á alþjóðlegum vettvangi fótboltans. Það er því ekki úr vegi að útnefna Alexu Gaul bæjarhetju Selfoss hér og nú eftir magnaða frammistöðu gegn Fylki í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu í gærkvöld.

Það hlakkaði eflaust í fleirum en mér sem staddir voru á Fylkisvellinum þegar ljóst var í hvað stefndi í bráðfjörugum leik liðanna. Eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var staðan 2:2 og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Það út af fyrir sig var þó ekki ástæðan fyrir spenningnum, heldur það að sjá markverðina tvo mætast. Í marki Fylkis er landsliðskonan Þóra B. Helgadóttir en hjá Selfossi fyrrnefnd Alexa Gaul sem farið hefur á kostum. Þær stöllur stóðu líka alveg fyrir sínu og vel það.

Gaul var hetjan í átta liða úrslitunum gegn ÍBV sem einnig fór í vítakeppni, en hún varði þá tvær spyrnur og skoraði úr einni. Eins og það sé ekki nóg þá bætti hún um betur í gær, varði þrjár spyrnur og skoraði úr einni, sem tryggði Selfossi sæti í úrslitum bikarsins í fyrsta sinn í sögunni. Var ég ekki örugglega búinn að nefna þetta með bæjarhetjuna?

Nánar er fjallað um leik Selfoss og Fylkis í undanúrslitum Borgunarbikarkeppni kvenna í knattspyrnu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert