Ólafur: Stefnum á að ná í þessa tvo

„Þetta var hörkuleikur allan tímann. Bæði lið fengu þolanleg færi. Sandra varði frábærlega og við skutum framhjá úr dauðafæri. Þetta hefði getað farið á hvorn veginn sem er. Mínir leikmenn höfðu hins vega vegar kjark og þor og kláruðu þetta og gerðu það virkilega vel,“ sagði Ólafur Þór Guðbjörnsson þjálfari Stjörnunnar eftir 1:0 sigur hans liðs  í undanúrslitum bikarsins á Breiðabliki.

Stjarnan sigraði Blika einnig fyrr í vikunni 1:0 en  Ólafi fannst lið sitt spila betur í leiknum í dag.

„Leikurinn var betur spilaður af okkur hálfu í dag. Þá vorum við ekki nógu og góð í síðari hálfleik en það var sama baráttan og leikmenn þekkja aðeins inn á hvor aðra. Ekki mikið um opin færi en það dugði í báðum leikjunum. Við settum eitt í hvorum leik og erum glöð með það,“ sagði Ólafur

Stjarnan á nú kost á því að sigra tvöfalt í ár en það hefur ekki gerst áður hjá félaginu. Ólafur var hins vegar allur hinn rólegasti yfir þeirri stöðu.

„Við erum ekki farin að hugsa það langt. Það er heilmikið eftir af þessu móti. Það eru tveir mánuðir eftir af Íslandsmótinu og mánuður í úrslitaleikinn. En við erum í þessu til að vinna, það er klárt. Þangað stefnum við, að ná í þessa tvo en við berðum bara að sjá hvað gerist,“ sagði Ólafur en nánar er rætt við hann í ofanverðu myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert