Leiknir náði sex stiga forskoti

Það var hart barist í leik KV og Tindastóls í …
Það var hart barist í leik KV og Tindastóls í Vesturbænum í dag. mbl.is/Eva Björk

Leiknismenn náðu sex stiga forskoti á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu eftir sigur á BÍ/Bolungarvík á útivelli í dag, 3:2, þegar þrettándu umferð deildarinnar lauk.

Brynjar Hlöðversson og Sindri Björnsson komu Leiknismönnum í 2:0 áður en Nigel Quashie minnkaði muninn úr vítaspyrnu á 26. mínútu. Matthew Horth kom Leikni í 3:1 en þegar tíu mínútur voru eftir fékk markaskorarinn Sindri rautt spjald fyrir að verja boltann með hendi á línu og víti dæmt.

Quashie fór aftur á punktinn og skoraði og hleypti spennu í leikinn. Goran Jovanovski fékk sitt annað gula spjald í sínum fyrsta leik fyrir BÍ/Bolungarvík í blálokin, lokatölur 3:2 fyrir Leikni sem hefur nú 30 stig í efsta sætinu og er sex stigum á undan ÍA og Þrótti.

Dramatískur sigur KV

Í Vesturbænum tók KV á móti botnliði Tindastóls. Það var fjör undir lok fyrri hálfleiks þegar Atli Jónasson í marki KV varði tvær vítaspyrnur í röð áður en Einar Már Þórisson kom liðinu yfir. Fannar Kolbeinsson jafnaði metin skömmu síðar en á lokamínútu fyrri hálfleiks kom Garðar Ingi Leifsson KV yfir á ný, staðan 2:1 í hálfleik.

Stólarnir jöfnuðu hins vegar metin fimm mínútum fyrir leikslok og allt leit út fyrir að þeir mundu krækja í stig, en Garðar Ingi skoraði annað mark sitt á fjórðu mínútu uppbótartímans, lokatölur 3:2.

KV komst með sigrinum upp í sjöunda sætið með 17 stig, en Tindastóll er enn á botninum með þrjú stig og án sigurs. BÍ/Bolungarvík er í tíunda sæti með 14 stig.

Atli Jónasson ver hér vítaspyrnu í marki KV í dag.
Atli Jónasson ver hér vítaspyrnu í marki KV í dag. mbl.is/Eva Björk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert