Björgólfur Takefusa til Þróttar

Björgólfur Takefusa er kominn heim til Þróttar.
Björgólfur Takefusa er kominn heim til Þróttar. Styrmir Kári

Framherjinn Björgólfur Takefusa er genginn í raðir 1. deildarliðs Þróttar og fær leikheimild með þeim frá og með morgundeginum.

Björgólfur samdi við Fram í vor og lék níu leiki með liðinu, en var frjálst að róa á önnur mið. Hann fer til Þróttar á láni út tímabilið, en hann hóf feril sinn hjá liðinu.

Þar með lokar Björgólfur hringnum en hann hóf meistaraflokksferilinn með Þrótturum árið 1998 og lék með þeim til 2003. Hann hefur síðan spilað með Fylki, KR, Víkingi, Fylki, Val og Fram, semsagt spilað með öllum gamalgrónu Reykjavíkurfélögunum.

Björgólfur, sem er 34 ára gamall, á að baki 183 leiki í efstu deild og hefur skorað í þeim 83 mörk en hann er í 8.-9. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar frá upphafi. Þá hefur hann spilað 42 leiki með Þrótti í 1. deildinni og skorað í þeim 14 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert