Hrafnhildur: Stíflan brast í kvöld

„Mér fannst við vera með þetta í hálfleik, okkur fannst við hafa tökin á þessu en svo veit ég ekki hvað gerðist í seinni hálfleik,“ sagði Hrafnhildur Hekla Eiríksdóttir, fyrirliði Fylkis, eftir 4:0-tap liðsins gegn Breiðabliki í Pepsi-deild kvenna í kvöld.

Fylkir hafði einungis fengið á sig fimm mörk það sem af er sumri en þau urðu fjögur í kvöld. „Stíflan brast í kvöld. Þegar við fengum eitt mark á okkur reyndum við að fara ofar og sækja en þá fór þetta að hrynja. Þegar þau voru komin þrjú þá skiptir ekki máli hvort það sé þrjú eða fjögur,“ sagði Hrafnhildur og sagði tap gegn Selfossi í bikarnum í síðustu viku hafa tekið sinn toll.

„Það sat svolítið í manni. Það var virkilega svekkjandi og maður þurfti kannski nokkra daga í viðbót til að hrista það af sér,“ sagði Hrafnhildur Hekla Eiríksdóttir, en nánar er rætt  við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert