Grindavík úr fallsæti eftir sigur á Djúpmönnum

Úr leik Grindvíkinga í sumar.
Úr leik Grindvíkinga í sumar. Árni Sæberg

Grindavík og BÍ/Bolungarvík áttust við í miklum botnbaráttuslag í Grindavík í kvöld og fóru heimamenn með öruggan sigur af hólmi 3:0. Stigin þrjú eru Grindvíkingum dýrmæt en þau komu liðinu úr fallsæti.

Liðin voru einungis stigi frá hvort öðru í 10. og 11. sæti deildarinnar fyrir umferðina, Grindvíkingar í fallsæti með 13 stig.

Fátt var um fína drætti í fyrri hálfleik og liðin áttu erfitt með að venjast vindinum sem gerði þeim erfitt fyrir. Grindvíkingar komu sterkari út síðari hálfleik og skoruðu fyrsta mark leiksins. Þar var að verki Alex Freyr Hilmarsson eftir undirbúning frá Einari Karli Ingvarssyni sem var að leika sinn fyrsta leik í búningi Grindvíkinga en hann kom skömmu áður inn á sem varamaður. Einar Karl kann vel við sig í gulu en fyrri hluta tímabilsins hefur hann leikið með Fjölni í Pepsi-deildinni.

Grindvíkingurinn Óli Baldur Bjarnason kom þeim svo í 2:0 eftir 73. mínútna leik. Djúpmenn virtust gefast upp við mótlætið og Grindvíkingar gengu á lagið. Þriðja mark þeirra skoraði Hákon Ívar Ólafsson á 85. mínútu með góðu skoti eftir fínan spilkafla Grindvíkinga og tryggði þeim dýrmæt stig í fallbaráttunni. 

Með sigrinum komast Grindvíkingar í 9. sætið, með 16 stig, stigi meira en Selfoss í 10. sætinu sem mætir Þrótti kl. 20. BÍ/Bolungarvík er hins vegar komið í fallsæti eftir tapið, er í 11. sætinu með 14 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert