Davíð Þór: Ótrúlega svekkjandi

Jón Ragnar Jónsson í baráttu við leikmann Elfsborg.
Jón Ragnar Jónsson í baráttu við leikmann Elfsborg. Ljósmynd/Patrik Skoglöw

„Við spiluðum mjög góðan fyrri hálfleik. Við vorum óheppnir og kannski klaufar að vera ekki yfir,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH eftir tap liðsins gegn sænska liðinu Elfsborg ytra, 4:1 í 3. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA.

„Þeir setja pressu á okkur í byrjun seinni hálfleik og skora þetta mark. Við komum ágætlega sterkir til baka og jöfnum og þessi leikur er að spilast eins og við viljum að hann spilist. Svo fáum við 2:1 markið á okkur og eftir það missum við taktinn og hættum að gera það sem var að virka,“ sagði Davíð svekktur eftir leikinn.

FH fékk á sig mörk í ódýrari kantinum í dag. Tvö mörk komu úr vítaspyrnu, eitt markið kom úr hornspyrnu.

„Það er virkilega svekkjandi, ég held að þessir vítaspyrnudómar hafi verið þokkalega réttir, getum ekki kvartað yfir þeim. Öll þessi mörk vorum full klaufaleg “ sagði Davíð sem þó sér veikleikamerki á Elfsborgarliðinu.

„Við þurfum að vera kaldari að halda boltanum og fá þá ennþá framar á völlinn, það eru klárlega veikleikar sem við eigum að geta nýtt okkur. Það er ótrúlega svekkjandi að hafa ekki fengið meira út úr þessum leik,“ sagði Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert