KR í bikarúrslit eftir markasúpu

Aron Bjarki Jósepsson sýnir háloftatilþrif í leiknum á Hásteinsvelli í …
Aron Bjarki Jósepsson sýnir háloftatilþrif í leiknum á Hásteinsvelli í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

KR-ingar eru komnir í bikarúrslit. Þeir fóru illa með ÍBV í Eyjum í kvöld þegar þeir unnu 5:2 eftir að hafa komist í 5:1. Sigur KR-inga var sanngjarn eins og lokatölur gefa til kynna en þó voru Eyjamenn sterkari í fyrri hálfleik. Þeir voru hins vegar 2:0 undir að honum loknum.  KR-ingum tókst því að spilla byrjuninni á þjóðhátíð en eigum við ekki að segja að fall sé fararheill?

Eyjamenn byrjuðu betur í fyrri hálfleik, fengu nokkur fín færi en besta færið fékk Jonathan Glenn þegar hann fékk frían skalla strax á 7. mínútu en skallaði yfir. Glenn var aftur á ferðinni á 29. mínútu þegar Arnar Bragi gerði vel í undirbúningi, sendi út í markteiginn á Glenn en Sindri Snær, sem stóð í marki KR-inga í fjarveru Stefáns Loga, varði vel.

Aðeins tveimur mínútum síðar komust KR-ingar yfir.  Þar var að verki Kjartan Henry Finnbogason sem skoraði úr vítateignum vinstra megin við markið eftir undirbúning Baldurs Sigurðssonar.  Ekki í fyrsta sinn sem Kjartan skorar gegn ÍBV í bikarnum á Hásteinsvelli.  Allt stefndi í að KR-ingar færu einu marki yfir inn í hálfleikinn en í uppbótartíma fyrri hálfleiks náði Baldur sjálfur að koma KR tveimur mörkum yfir þegar hann fylgdi eftir skoti Óskars Hrafns Haukssonar. Sannarlega furðuleg staða miðað við gang leiksins.

Eyjamenn voru hins vegar ekki lengi að minnka muninn eftir hlé, það gerði markahrókurinn Jonathann Glenn strax á 47. mínútu. En þá var eins og allur vindur væri úr Eyjamönnum og KR-ingar gengu á lagið. Þeir voru sterkari eftir þetta og uppskáru glæsilegt mark þegar Kjartan Henry skoraði sitt annað mark. Gary Martin sendi fyrir markið, erfiða sendingu en Kjartan negldi boltanum inn við fjærstöng úr afar þröngu færi. KR-ingar bættu svo við tveimur mörkum, fyrst Gonzalo Balbi á 76. mínútu og Óskar Örn á 84. mínútu. Andri Ólafsson minnkaði svo muninn fyrir ÍBV á 86. mínútu en lengra komust Eyjamenn ekki. Lokatölur 5:2.

Hægt er að fylgjast með ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI til að sjá ýmislegt tengt leiknum sem og Evrópuleikjum Stjörnunnar og FH, auk frétta af félagaskiptum á þessum síðasta degi félagaskiptagluggans.

ÍBV 2:5 KR opna loka
90. mín. ÍBV fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert