Þjóðhátíð hefst á bikarslag

Aron Bjarki Jósepsson og Víðir Þorvarðarson í leik liðanna í …
Aron Bjarki Jósepsson og Víðir Þorvarðarson í leik liðanna í fyrra. mbl.is

Það má segja að Þjóðhátíð í Eyjum hefjist formlega á Hásteinsvelli klukkan 18 í kvöld þegar ÍBV og KR mætast í undanúrslitum bikarsins.

Þetta er þriðja árið í röð sem þessi lið mætast í bikarkeppninni og í þriðja sinn í röð sem leikið er í Eyjum. Sumarið 2012 mættust liðin í átta liða úrslitunum þar sem KR hafði betur, 2:1, og varð bikarmeistari þá um sumarið. Það var Óskar Örn Hauksson sem tryggði liðinu sigur með tveimur mörkum á þremur mínútum undir lok leiksins.

Í fyrra mættust liðin einnig í átta liða úrslitunum og aftur hafði KR betur, nú 3:0. Það var mikill hasar í leiknum og tveir Eyjamenn fengu rautt spjald, þeir Aaron Spear í fyrri hálfleik og Ragnar Pétursson undir lok leiksins, en mikið var talað um brottrekstur Spears og sagt að KR-ingur hefði fiskað hann af velli með leikaraskap. Kjartan Henry Finnbogason skoraði tvö marka KR og Óskar Örn eitt.

Sigurliðið í kvöld mætir Keflavík í úrslitaleik bikarsins þann 16. júlí, en leikurinn í Eyjum hefst klukkan 18 og verður í beinni lýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert