Leiknir og ÍA styrktu stöðu sína

Hilmar Árni Halldórsson og félagar í Leikni eru í góðum …
Hilmar Árni Halldórsson og félagar í Leikni eru í góðum málum á toppi 1. deildarinnar. mbl.is/

Staða Leiknis og ÍA á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu vænkaðist í kvöld þegar 17. umferðin fór fram.

Fylgst var með leikjunum í ÍSLENSKI BOLT­INN Í BEINNI.

Leiknismenn gerðu 2:2 jafntefli við Selfyssinga á útivelli en eru engu að síður með 7 stiga forskot á toppi deildarinnar og með 12 stiga forskot á liðin í 3. sæti. Selfyssingar léku manni færri í 50 mínútur. Luka Jagicic og Haukur Ingi Gunnarsson gerðu mörk heimamanna en Andri Fannar Stefánsson og Hilmar Árni Halldórsson úr vítaspyrnu settu mörkin fyrir toppliðið.

Skagamenn burstuðu Tindastól, 5:2, og þar með féllu Stólarnir í 2. deild. Garðar Gunnlaugsson skoraði tvö marka Skagamanna og er hann markahæstur í deildinni með 16 mörk.

HK tapaði dýrmætum stigum í toppbaráttunni þegar liðið lá fyrir Víkingi á Ólafsvík, 1:0. Alejandro Abarca skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og þar með komust Víkingar upp að hlið HK-inga í 3.-4. sætið. Undir lok leiksins var Viktor Unnar Illugason framherji HK rekinn af velli.

KV tapaði fyrir Haukum, 3:2, á Ásvöllum og fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni. Þeir Gunnar Kristjánsson og Ingólfur Sigurðsson, leikmenn KV, fengu að líta rautt spjald á lokamínutum leiksins en skömmu áður hafði Haukamaðurinn Gunnlaugur Fannar Guðmudsson fengið reisupassann. Hilmar Rafn Emilsson skoraði tvö af mörkum Hauka.

Þróttarar tryggðu sér sigur í blálokin gegn Grindavík en lokatölur urðu, 2:1. Vilhjálmur Pálmason skoraði sigurmark Þróttara undir lokin en skömmu síðar var Karl Brynjar Björnsson varnarmaður Þróttara rekinn af velli.

Þá skildu KA og BÍ/Bolungarvík jöfn, 1:1, á Akureyri. KA-menn voru sterkari í fyrri hálfleik og Stefán Þór Pálsson skoraði mark liðsins eftir sendingu frá Viktori Erni Guðmundssyni en enski reynsluboltinn Nigel Quashie jafnaði fyrir Djúpmenn í seinni hálfleik en þá bitu þeir vel frá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert