Heilabrot hjá þjálfaranum

Kvennalandsliðið á æfingu á Laugardalsvellinum í gær.
Kvennalandsliðið á æfingu á Laugardalsvellinum í gær. mbl.is/Styrmir Kári

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, fær að brjóta heilann og finna út hvernig varnarlína Íslands verður sem sterkust í landsleiknum mikilvæga gegn Danmörku á Laugardalsvelli annað kvöld.

Miðvörðurinn Glódís Perla Viggósdóttir úr Stjörnunni er nefnilega tæp vegna meiðsla og þegar Morgunblaðið ræddi við Frey fyrir æfingu liðsins í gær var hann svartsýnn á þátttöku Glódísar í leiknum gegn Danmörku. Fyrir var ljóst að Sif Atladóttir yrði ekki með í leiknum vegna meiðsla, en Glódís og Sif mynduðu miðvarðapar íslenska landsliðsins þegar Íslendingar gerðu 1:1-jafntefli við Dani í útileiknum í undankeppni heimsmeistaramótsins fyrr í sumar.

Það mikilvægasta af öllu í þessu samhengi er samt orð Freys um málið í gær. „Ég treysti öllum leikmönnum í þessum hópi til þess að spila. Við verðum líka að líta á þetta sem tækifæri á að gefa öðrum leikmönnum kost á því að spila hérna við frábærar aðstæður gegn góðu liði. Það verður einhver nýjung í liðsuppstillingunni, en það er ekkert sem við hræðumst, heldur hlökkum til að takast á við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert