Stjarnan haldið hreinu í 234 mínútur

Inter á æfingu á Laugardalsvelli í gærkvöld.
Inter á æfingu á Laugardalsvelli í gærkvöld. mbl.is/Eggert

Í upphitun á opinberri vefsíðu ítalska knattspyrnuliðsins Inter Mílanó fyrir leik Stjörnunnar og Inter í 4. umferð Evrópudeildar UEFA í kvöld er gert að sérstöku umfjöllunarefni að Stjarnan hefur enn ekki tapað leik í Evrópukeppni, en Stjarnan er á sínu fyrsta ári í Evrópukeppni.

Þá er vakin athygli á því að Stjarnan sem hefur markatöluna 14:4 úr leikjunum sex sem liðið hefur spilað í Evrópudeildinni í sumar, hefur ekki fengið á sig mark í 234 mínútur. Síðast þegar Ingvar Jónsson markvörður liðsins þurfti að hirða knöttinn úr netinu var á 66. mínútu í síðari leiknum gegn skoska liðinu Motherwell í 2. umferð keppninnar.

Stjarnan og Inter mætast á Laugardalsvelli klukkan 21.00 í kvöld og svo á Gueseppe Meazza vellinum eins og Inter vill kalla San Siro leikvanginn í Mílanó, fimmtudaginn í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert