Freyr: Ofboðslega svekktur og hissa

„Ég er bara með ónotatilfinningu, ofboðslega svekktur yfir að hafa tapað þessum leik,“ sagði Freyr Alexandersson þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu eftir tapið gegn Danmörku á Laugardalsvelli í kvöld sem slökkti vonina um að komast á HM á næsta ári.

Íslenska liðið fékk hvert færið á fætur öðru í fyrri hálfleik án þess að skora en Danir gerðu eina markið eftir tæplega klukkutíma leik.

„Þetta var eins og við vildum. Við fengum færin, þjörmuðum að þeim, en það vantaði markið og svo vorum við bara bitin í rassinn. Það geta verið ótal hlutir sem gera þetta að verkum. Leikmennirnir eru nógu góðir. Þeir koma sér í þessi færi og ég hef séð þær skora úr þeim. Ég hef þannig séð engin svör við þessu. Ég er bara ofboðslega svekktur og hissa,“ sagði Freyr. Nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert