Þjálfari Inter: Erfiðara en úrslitin gefa til kynna

Leikmenn Inter fagna fyrsta marki sínu í kvöld.
Leikmenn Inter fagna fyrsta marki sínu í kvöld. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Walter Mazzarri, þjálfari ítalska stórliðsins Inter Mílanó, var mjög ánægður með að fara með 3:0 sigur frá Íslandi í lokaumferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Inter sigraði Stjörnuna 3:0 í Laugardalnum í kvöld en liðin mætast aftur í Mílanó í næstu viku. 

„Þrátt fyrir 3:0 sigur þá var leikurinn erfiðari en tölurnar segja til um. 3:0 sigur hefði ekki orðið niðurstaðan ef okkur hefði ekki tekist að skora undir lok fyrri hálfleiks. Það mark losaði um stöðuna og gerði hlutina aðeins auðveldari fyrir okkur í seinni hálfleik,“ sagði Mazzarri á blaðamannafundi þegar úrslitin lágu fyrir og sagði hafa ásamt aðstoðarmönnum sínum stúderað lið Stjörnunnar gaumgæfilega eins og alla aðra andstæðinga í aðdraganda leiksins. 

„Í stöðunni 2:0 slökuðum við aðeins á og það kom okkur kannski svolítið á óvart að þá náði Stjarnan nærri því að skora. Slíkt er víti til varnaðar og sýnir að aldrei má slaka á.“

Mazzarri sagðist ekki líta þannig á að úrslitin væru ráðin í rimmu liðanna. Saga fótboltans kenni mönnum það og betra sé að hafa vaðið fyrir neðan sig. Hann vonast eftir því að stuðningsmenn Inter fjölmenni á San Siro á seinni leik liðanna, ekki síst í ljósi þess að um sé að ræða fyrsta alvöruleik Inter á San Siro á leiktíðinni sem er að fara af stað á Ítalíu. 

Walter Mazzarri þjálfari Inter Mílanó á æfingu í gær.
Walter Mazzarri þjálfari Inter Mílanó á æfingu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert