„Drullaðu þér aftur til Rússlands“ ekki brot á reglum

Eyþór Helgi Birgisson hefur þegar tekið út leikbannið sem hann …
Eyþór Helgi Birgisson hefur þegar tekið út leikbannið sem hann fékk. mbl.is/Árni Sæberg

Áfrýjunardómstóll KSÍ ákvað í dag að stytta leikbannið sem Eyþór Helgi Birgisson, leikmaður Víkings Ó., fékk eftir leikinn við Grindavík 9. ágúst úr 5 leikjum í 1. Hundrað þúsund króna sekt sem Víkingur fékk var einnig felld niður.

Eyþór Helgi fékk rautt spjald í leiknum fyrir að ýta við leikmanni Grindavíkur. Á leið sinni af vellinum lét hann ljót orð falla í garð aðstoðardómarans Viatcheslav Titov, sem er af rússnesku bergi brotinn.

Samkvæmt skýrslu dómara eftir leik mun Eyþór Helgi hafa sagt við aðstoðardómarann: „Drullaðu þér aftur til Rússlands.“

Aga- og úrskurðanefnd KSÍ taldi að með þessum orðum hefði Eyþór Helgi gerst brotlegur við grein 16.1 í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðamál. Í því ákvæði segir meðal annars að hver sá sem misbjóði einstaklingi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði varðandi þjóðernisuppruna skuli sæta leikbanni í að minnsta kosti 5 leiki. Jafnframt skuli viðkomandi sæta sekt að lágmarki 100.000 krónum.

Í úrskurði áfrýjunardómstólsins segir að ekki sé fallist á það að orðbragð leikmannsins hafi verið með þeim hætti að hann hafi gerst brotlegur við grein 16.1, þó orðbragðið sé honum ekki til sóma. Því var bannið stytt niður í 1 leik sem er lágmarksrefsing vegna rauðs spjalds.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert